„Ólafur Ragnar gefur til kynna að hann muni stíga til hliðar, með orðalagi sem útilokar þó ekki alveg umsnúning.“
Ræðan hefur vakið mikla athygli enda virðist sem svo að Ólafur Ragnar Grímsson sé að tilkynna um brotthvarf sitt, en er það endilega svo ef að er gáð? „Þegar ég nú, samkvæmt umboðinu sem þjóðin fól mér, set Alþingi í síðasta sinn,“sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í setningarávarpi sínu til þingsins. Hann setti 145. löggjafarþingið fyrr í dag. Færði hann þinginu einlægar þakkir fyrir farsæla samveru.
Í fyrstu var talið að með þessu væri Ólafur að segja að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram aftur til forseta fyrir kosningarnar á næsta ári. Hins vegar er ljóst að hann gæti sóst eftir umboði þjóðarinnar á nýjan leik.
Björn Ingi Hrafnsson, fjölmiðlamaður, þekkir vel til forsetans og telst vera honum handgenginn. Í fyrstu velktist hann hvergi í vafa um hver merking orða Ólafs Ragnars væri: „Og hefst þá samkvæmisleikurinn: Hver vill verða næsti forseti?“ En, svo er eins og það renni á hann tvær grímur þegar honum er bent á að þetta sé ekki með öllu afdráttarlaust: „Nei, það er alveg rétt enda forsetinn meistari hins óræða texta. En svo þakkaði hann öllu samstarfsfólki og starfsfólki þingsins gegnum árin og það var svona heilmikill kveðjutónn í þessu. En fyrirsögnin segir að hann gefi sterklega í skyn að hann hyggist hætta.
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur virðist ekki taka mið af meistaratöktum forsetans hvað varðar hinn óræða texta og hann dregur umsvifalaust þá ályktun að Ólafur Ragnar sé á förum: „Merkileg tíðindi, að Ólafur Ragnar ætli ekki að bjóða sig fram að nýju. Áhugavert að sjá hverjir fara nú að máta sig í embættið. Einkum þó athyglisvert að sjá hvernig þeir sjá embættið fyrir sér. Það hefur nefnilega breyst svo mjög í meðförum Ólafs, að umræðan mun eflaust hverfast um það, hvernig embættið eigi að vera í framtíðinni.“
Fjölmörg dæmi má nefna önnur þar sem menn reyna að rýna í orð forsetans og þau má sjá hér neðar; er hann virkilega að fara? Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor leggur til að mynda það í orð Ólafs Ragnars að hann sé hvergi nærri á förum.
...
Uppfært.
Næstu stjórnvöld gætu hæglega átt Ólaf Ragnar á fæti
Fréttastofa náði tali af prófessor Eiríki Bergmanni, sem segir að þessi hafi verið sú ályktun við fyrstu fréttum en eftir að hafa lesið ræðu forseta þá birtist allt önnur mynd:
„Hann byrjar á því að leggja grunn að því að það megi ekki hrófla við fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar, að íslenska lýðveldið bókstaflega hvíli á því. Segir svo að ef menn ætla að setja slíka breytingu í þjóðaratkvæði samhliða forsetakjöri sé komin upp samskonar óvissa og hann varaði við fyrir fjórum árum og var þá forsenda þess að hann gat ekki stigið til hliðar. Með öðrum orðum geti stjórnvöld sem fari gegn vilja hans í þessu hæglega átt hann á fæti í næsta forsetakjöri.“