„Riftun Framkvæmdastjórnar á samningnum á þeim grundvelli að íslensk yfirvöld settu aðildarviðræður á ís teljast vera verulega slæmir stjórnsýsluhættir,“ segir í áliti Umboðsmanns ESB. „Framkvæmdastjórnin hefur sýnt af sér slæmt framferði í þessu máli. Gjörðir framkvæmdastjórnarnar eru með öllu óásættanlegar og geta orðið til þess að orðspor hennar og Evrópusambandsins í heild sinni á á hættu að verða fyrir skaða.“
Í áliti embættisins segir jafnframt að ekkert í samningnum sem gerður var á milli Framkvæmdastjórnar ESB og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins bendi til þess að gildistími samningsins hafi verið háður framvindu í aðildarviðræðum Íslands að ESB en eins og kunnugt er var veitingu IPA-styrkja frá ESB hætt í kjölfar þess að aðildarviðræðurnar voru settar á ís.

Forsaga málsins er sú að Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hlaut IPA-styrk frá Evrópusambandinu í júní 2012 til þess að vinna að verkefni sem tengdist því að efla starfshæfni fullorðinna einstaklinga með litla formlega menntun. Var gerður samningur á milli framkvæmdastjórnar ESB og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins um framkvæmd verkefnisins.
Í kjölfar þess að ríkisstjórn Íslands setti aðildarviðræður að ESB á ís var samningi ESB og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins var því rift með tveggja mánaða fyrirvara þann 5. febrúar 2014.
Fræðlumiðstöðin undi ekki þessari riftun á grundvelli þess að pólitískar ákvarðanir íslensku ríkisstjórnarinnar kæmu samningnum ekki við. Fræðslumiðstöðin leit svo á að samningurinn væri bindandi og hafði þessvegna tekið á sig umtalsverðar fjárhagslegar skyldur á grundvelli þess að fjármagn fengist vegna samnings Fræðslumiðstöðvarinnar og framkvæmdastjórnar ESB. Sendi Fræðslumiðstöðin í kjölfarið kvörtun til Umboðsmann Evrópusambandsins sem nú hefur gefið út álit sitt.
Farið eftir tilmælum Umboðsmanns Evrópusambandsins í 80% tilvika
Í áliti umboðsmannsins segir að ekkert í samningum gefi til kynna að gildistími hans hafi verið háður aðildarviðræðum Íslands að ESB og mælist embættið til þess að framkvæmdastjórnin leiðrétti gjörðir sínar, jafnvel þótt seint sé í rassinn gripið.
Álit Umboðsmanns Evrópusambandsins eru ekki bindandi en samkvæmt síðustu árskýrslu embættisins hafa stofnanir ESB farið eftir tilmælum Umboðsmanns í 80% tilvika