Nýjasti leikmaður San Antonio Spurs, La Marcus Aldridge, er með harðari skósöfnurum heims.
Hann safnar sérstaklega strigaskóm og safnið er orðið svo stórt að hann kemur ekki einu pari í viðbót fyrir í skóskápnum sínum.
Hvað gera bændur þá? Jú, þeir byggja sérstakt hús fyrir skóna.
Aldridge er búinn að greina frá því að hann sé þessa dagana að byggja hús út í garði hjá sér sem hefur það eina hlutverk að hýsa strigaskóna hans.
Ekki er vitað nákvæmlega hvað Aldridge á mörg skópör en þau hlaupa örugglega á hundruðum fyrst hann þarf sérstakt hús fyrir skóna.

