Innlent

Tæpum 36 milljónum varið í ráðherrabíla á kjörtímabilinu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hér má sjá bifreið Gunnars Braga Sveinssonar, glænýja úr kassanum.
Hér má sjá bifreið Gunnars Braga Sveinssonar, glænýja úr kassanum. vísir/ernir
Það sem af er kjörtímabíli hefur ríkið varið tæpum 36 milljónum króna til kaupa á ráðherrabílum. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Júlíusdóttur.

Utanríkisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa fengið nýjar bifreiðar það sem af er kjörtímabili.

Bifreið utanríkisráðherra, Land Rover Discovery, er dýrastur nýju bílanna en hann kostaði rúmlega 13,2 milljónir og Land Cruiser 150 bifreið sjávarútvegsráðherra kostaði 12,7 milljónir. Fjármálaráðherra ekur um í ódýrasta bílnum en Mercedes Benz E250 bifreið hans kostaði aðeins 9,6 milljónir. Söluandvirði eldri bifreiða nemur tæpum átta milljónum króna.

Í 8. gr. reglugerðar nr. 816/2013, um bifreiðamál ríkisins, segir að leggja skuli ráðherrum ríkisstjórnarinnar til bifreið til afnota vegna starfa sinna og til aksturs frá heimili að vinnustað. Bifreiðin skuli vera sérútbúin með öryggiskerfi og staðsetningarbúnaði og vera í eigu og rekstri ríkisins. Slíkri bifreið skuli að jafnaði ekið af sérstökum bifreiðarstjóra sem sinni jafnframt hlutverki öryggisvarðar hlutaðeigandi ráðherra.

Í svari við fyrirspurninni kemur fram að bifreiðar Stjórnarráðsins séu komnar til ára sinna enda hafi endurnýjun þeirra verið frestað frá árinu 2008. Elstu bifreiðarnar séu frá árinu 2004. Notkun bílanna sé mikil og sumar þeirra eru eknar allt að 60.000 kílómetra á ári. Þá hafi viðhalds- og rekstrarkostn-aður aukist töluvert á undanförnum árum, en gert er ráð fyrir að hann lækki samhliða endurnýjun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×