Innlent

„Hvað getum við framsóknarmenn gert þó við vöknum fyrr en aðrir?“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Páll Jóhann Pálsson
Páll Jóhann Pálsson vísir/pjetur
Umræða skapaðist í morgun á Alþingi um fyrirkomulag dagskrárliðsins Störf þingsins. Sá háttur hefur verið hafður á að þingmenn sendi tölvupóst klukkan átta að morgni dags til að melda sig á mælendaskrá og gildir þar reglan fyrstur kemur fyrstur fær. Eftir að liðnum lauk tók við umræða um fundarstjórn forseta þar sem talsverðrar gremju gætti hjá þingmönnum sem ekki komust að. Fimmtán þingmenn komast á mælendaskrá en af þeim voru sjö framsóknarmenn. 

„Ég sendi tölvupóst klukkan 08.02 í morgun og ég komst ekki að. Hins vegar voru sjö Framsóknarmenn á mælendaskrá sem aldrei heyrist í annars,“ sagði Valgerður Bjarnadóttir en alls komast fimmtán þingmenn að. Hún hafði þá grunaða um að stilla tölvupóstforrit sitt kvöldið fyrir svo póstur sendist sjálfkrafa um morguninn.

Þingmennirnir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Katrín Júlíusdóttir tóku í sama streng og sögðu að núverandi fyrirkomulag gengi ekki. Píratinn Jón Þór Ólafsson lagði til að tölvupóstskráningin yrði afnumin og gamla góða handauppréttingin í þingsal yrði tekin upp á ný.

„Hvað getum við framsóknarmenn gert að því þó við vöknum örlítið fyrr en aðrir? Mér þykir illa að okkur vegið,“ sagði Páll Jóhann Pálsson er komið var að honum að ræða um fundarstjórn forseta. Hann bætti því við að hann og hans flokksfélagar tækju til máls þegar það ætti við og væru ekki að ræða í þaula þau mál sem væru útrædd. Þá myndu þeir ekki hertaka liði á borð við um fundarstjórn forseta líkt og minnihlutinn gerði sig oft sekan um. Uppskar sú athugasemd hlátrasköll þingmanna í salnum.

„Það er gott að vita hve þingheimur er glaður í morgunsárið,“ sagði Einar K. Guðfinnsson, forseti þingsins. Hann lagði til að málið yrði tekið fyrir hjá forsætisnefnd og þingmenn myndu komast að niðurstöðu þar. „Að vísu finnst mér tíðindum sæta að þingmaður Pírata skuli stinga upp á því að aftæknivæða þingið örlítið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×