Hinn brottrekni aðstoðarþjálfari Keflavíkur, Þorkell Máni Pétursson, var í áhugaverðu viðtali við Akraborgina í dag.
Þar tók hann á sig ábyrgðina á því að hann og Kristján Guðmundsson hafi í gær verið reknir sem þjálfarar Keflavíkur.
„Ég get tekið á mig ábyrgðina. Kristján vildi fara í massífar breytingar í Keflavík og ég bakkaði hann ekki upp. Ég gaf honum ekki stuðning því það hefði kostað átök að fara í þetta," sagði Máni í viðtalinu hjá Hirti Hjartarsyni.
Máni vildi alls ekki afsaka lélegt gengi Keflavíkur í sumar.
„Það er alltaf hægt að segja að þetta og hitt hafi ekki dottið fyrir okkur en ég er ekki í því. Afsakanir eru fyrir aumingja."
Máni fór fögrum orðum um leikmenn Keflavíkur og sagði að þar væri ekki verið að reyna að gera kjúklingasalat úr kjúklingaskít.
„Það eru sko djúsi kjúklingabringur í Keflavík og ferskir ungir kjúllar."
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér að ofan.
