Íslenski boltinn

„Við erum að gera eitt­hvað rétt“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Tufa og Kristinn verða klárir í kvöld.
Tufa og Kristinn verða klárir í kvöld. vísir/ívar fannar

Valsmenn mæta Flora Tallinn í forkeppni Sambandsdeildarinnar á Hlíðarenda í kvöld. Valsmenn ætla sér áfram í næstu umferð.

Valsmenn eru í 2.sæti Bestudeildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Víkinga. Liðið er komið í bikarúrslit og því enn í öllum keppnum. Það verður því töluvert álag á næstu vikum. Seinni leikurinn gegn Flora Tallinn er síðan ytra 17. júlí í Eistlandi.

„Það er gríðarlega mikilvægt að mæta í þessa Evrópuleiki þegar liðið er með fullt sjálfstraust og á góðu róli. Aftur á móti erum við að fara mæta hörkuliði. Þetta eru margfaldir meistarar í Eistlandi og risaklúbbur. Ég fór út til að horfa á þá um helgina og þetta verður hörkueinvígi,“ segir Tufa þjálfari Vals.

Mikið leikjaálag

„Þetta verða strembnar vikur en þetta er það sem við viljum og sérstaklega leikmennirnir. Ef þú ert að berjast á öllum vígstöðvum þá segir það að við erum að gera eitthvað rétt,“ segir þjálfarinn.

„Þetta verða klárlega mikið af leikjum og það er miklu skemmtilegra að vera í þessari baráttu sem við erum í. Við þurfum bara að gera okkur klára fyrir hvern leik og hugsa um einn leik í einu og mæta klárir,“ segir Kristinn Freyr Sigurðsson leikmaður Vals. Hann segir að þegar leikjaálagið er svona mikið verða æfingarnar öðruvísi.

„Þetta snýst um leikina og þá verður að hugsa að við séum eins orkumiklir og hægt er. Þetta einvígi verður 180 mínútur og það er margt sem getur gerst. Þetta einvígi vinnst ekki á fyrsti níutíu mínútunum. Við þurfum að fara út með góð úrslita og klára þá síðan þar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×