Innlent

Mótmæla áframhaldandi hrefnuveiðum við hvalaskoðunarsvæði

Samúel Karl Ólason skrifar
Í tilkynningu frá samtökunum segir að umfang hvalaskoðunar og þjóðhagslegs mikilvægi þeirra hafi vaxið á undanförnum árum.
Í tilkynningu frá samtökunum segir að umfang hvalaskoðunar og þjóðhagslegs mikilvægi þeirra hafi vaxið á undanförnum árum. Vísir/Vilhelm
Hvalaskoðunarsamtök Íslands, eða IceWhale, lýsa furðu sinni á því að hrefnuveiðar séu hafnar enn á ný við eitt mikilvægasta hvalaskoðunarsvæði landsins; Faxaflóa. Þau mótmæla harðlega áframhaldi veiðanna og segja það áhyggjuefni að talning Hafrannsóknarstofnunar hafi sýnt fram á fækkun hvala.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að veiðarnar hafi farið af stað þrátt fyrir þverpólitískan vilja borgarstjórnar Reykjavíkur um stækkun friðarsvæðisins í Faxaflóa.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að umfang hvalaskoðunar og þjóðhagslegs mikilvægi þeirra hafi vaxið á undanförnum árum. „118.000 farþegar fóru í hvalaskoðun frá Reykjavík á síðasta ári en gera má ráð fyrir að hver farþegi hafi að meðaltali greitt 8.000 krónur fyrir farmiðann sem gerir 944 milljónir króna aðeins í farmiðasölu.“

Sömuleiðis benda samtökin á að ýmis merki séu uppi um slæma afkomu hrefnuveiða. Þá kemur fram í svari Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur á Alþingi að útgerðin fái um eina milljón króna fyrir hvert landað dýr.

„Til samanburðar má nefna að miðasala í einni hvalaskoðunarferð með um 125 farþega skilar sömu innkomu. Sá fjöldi farþega er algengur í hverri hvalaskoðunarferð í Reykjavík yfir sumarið og farnar eru margar ferðir á degi hverjum.“

„Ljóst er að veidd hrefna verður hvorki veidd né sýnd aftur.“

Veiðarnar hafa að mestu farið fram við Faxaflóa, sem er gríðarlega mikilvægur hvalaskoðun. Á myndinni hér að neðan má sjá hvar veiðarnar hafa farið fram. Kortið er unnið upp úr svarinu sem minnst er á hér að ofan.

„Sérstaklega má benda á að tvö dýr virðast hafa verið skotin innan við afmarkað bannsvæði hvalveiða og önnur tvö á línunni.“

Einnig má sjá kort af veiðunum í heild árin 2013-2014 hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×