Á vef ráðuneytisins þann 20. febrúar síðastliðinn er fjallað um áætlanir þess efnis að birta útdrætti úr úrskurðum í útlendingamálum en þegar fréttin birtist höfðu sex úrskurðir í útlendingamálum þegar verið birtir.
Frumvarp til breytinga á útlendingalögum, sem nú er til meðferðar á Alþingi, gerir ráð fyrir því að ráðherra hafi heimild til að birta úrskurði og setja nánari reglur um birtingu þeirra.

„Almennt er gott að úrskurðir séu birtir því þá er auðveldara að gæta jafnræðis en hins vegar þarf stjórnsýslan að fara að lögum og það er því spurning hvort má birta nokkuð án þess að það sé lagaheimild fyrir því auk þess sem það þarf að gæta persónuverndar þeirra sem í hlut eiga.“
Trausti Fannar Valsson, lektor í stjórnsýslurétti við Háskóla Íslands, segir að birting persónuupplýsinga sé vandmeðfarin.

Persónuvernd gaf allsherjarnefnd álit sitt á því frumvarpi sem liggur fyrir þinginu. Þar kemur fram að gæta verði að 9. gr. upplýsingalaga þar sem mælt er fyrir um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einkamál einstaklinga sem sanngjarnt þyki að séu einkamál nema sá sem gögnin fjalla um samþykki birtinguna.
Persónuvernd leggur áherslu á að ákvörðun um birtingu úrskurðanna sé ekki í hendi ráðherra heldur að Alþingi taki afstöðu til þess hvort birta eigi úrskurðina og með hvaða hætti.
Upplýsingar um ástalíf kunngjörðar
Þeir úrskurðir sem ráðuneytið hefur nú þegar birt á vefsíðunni úrskurðir.is eru sex talsins. Nafnleyndar er gætt í skjölunum og þjóðerni kæruaðila er jafnframt afmáð. Þó má ráða af einu skjalinu að aðili máls sé af þjóðarbroti sjálfstjórnarríkis sem viðurkennt var árið 1999. Í skjölunum koma einnig fram upplýsingar um námsárangur umsækjenda um námsdvöl sem og viðkvæmar upplýsingar um hvernig meint kærustupar kynntist, hóf samband og hvernig sambandinu er háttað í dag.