Skoðun

Allir til í einkavæðingu?

Sóley Tómasdóttir skrifar
Hugmynd Bjarna Benediktssonar um sölu á hlut í Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna hefur vakið athygli. Hugmyndin er í fullu samræmi við stefnu Sjálfstæðismanna sem vilja koma sem allra flestum samfélagslegum verkefnum í hendur einkaaðila.

Fyrsta skref í átt að einkavæðingu

Allt tal um að lífeyrissjóðirnir séu jú í eigu almennings og Landsvirkjun verði þannig áfram í eigu almennings er augljós fyrirsláttur. Lífeyrissjóðirnir hafa fyrst og fremst það markmið að ávaxta fjármuni sjóðsfélaga og þeim ber að selja hlutinn áfram ef hentugur kaupandi finnst. Auk þess skortir mjög á lýðræðislegt aðhald almennings gagnvart lífeyrissjóðunum. Að selja hlut til lífeyrissjóðanna er hreint og klár fyrsta skref í átt að einkavæðingu og það er beinlínis óforskammað að halda öðru fram. En Sjálfstæðisflokkurinn er eins og hann er og honum verður víst seint breytt.

Besti flokkur og Samfylking sammála Bjarna

Verra er að hann er ekki einn og raunar hafa aðrir flokkar gengið enn lengra en Sjálfstæðisflokkurinn. Á kjörtímabilinu hóf meirihluti Besta flokks og Samfylkingar beinlínis viðræður við lífeyrissjóðina um aðkomu þeirra að stofnun sérstaks félags sem sæi um uppbyggingu Hverahlíðarvirkjunar í stað Orkuveitu Reykjavíkur.

Meirihlutinn kallaði það auðvitað ekki einkavæðingu frekar en Bjarni, og ekki heldur sölu, heldur verkefnisfjármögnun. En auðvitað var þar allt á sömu bókina lagt, lífeyrissjóðirnir hefðu eignast hlut í því sem annars hefði tilheyrt Orkuveitu Reykjavíkur með sömu áhættu og afleiðingum og þær hugmyndir sem Bjarni kynnir nú.

Ein á móti

Tillagan um viðræður við lífeyrissjóðina var samþykkt með 14 atkvæðum gegn einu í borgarstjórn Reykjavíkur. Fulltrúar Besta flokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks voru allir sammála um að selja lífeyrissjóðunum hluta af Orkuveitu Reykjavíkur. Og það var hvorki í fyrsta né eina skiptið sem Vinstri græn hafa staðið vaktina gegn einkavæðingu almannaþjónustunnar. Í tíð núverandi meirihluta hefur Gagnaveita Reykjavíkur verið sett í söluferli og hlutur Orkuveitunnar í Hitaveitu Suðurnesja seldur til einkaaðila. Atkvæði voru greidd á sama hátt í öllum þessum málum.

Almannaeign og lýðræðislegt aðhald

Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur eru fyrirtæki sem gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki enda leggja þau grunn að lífsskilyrðum á landinu. Slík fyrirtæki eiga að vera alfarið og undantekningarlaust í eigu almennings og lúta skýru lýðræðislegu aðhaldi. Vinstri græn munu hér eftir sem hingað til standa með almannaþjónustunni, ein flokka.




Skoðun

Sjá meira


×