Skoðun

Mikill virðisauki í áli

Þorsteinn Víglundsson skrifar
Í nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar um framlag áliðnaðar til landsframleiðslu á Íslandi kemur fram að beint og óbeint framlag áliðnaðar nemur um 90 milljörðum króna á ári hverju. Þetta framlag hefur aukinheldur nær tvöfaldast á þeim fjórum árum sem skýrsla Hagfræðistofnunar tekur til.

Níutíu milljarðar króna samsvara um það bil sjö prósentum af landsframleiðslu okkar Íslendinga. Til samanburðar hefur beint og óbeint framlag sjávarútvegs til landsframleiðslu verið metið um 17,5 prósent. Framlag áliðnaðar er því enn sem komið er minna en framlag sjávarútvegs, en umtalsvert engu að síður.

Hagfræðistofnun skilgreinir í skýrslu sinni áliðnað, ásamt orkuiðnaði, sem grunnatvinnuveg hér á landi. Grunnatvinnuvegur er hugtak sem lengi hefur verið í mótun innan hagfræðinnar. Slíkur atvinnuvegur er í eðli sínu efnahagslega þýðingarmeiri en umfang hans, þ.e. beinn virðisauki, gefur til kynna þar sem aðrir atvinnuvegir spretta upp vegna hans og eru háðir honum í starfsemi sinni. Fyrir vikið geti framlag áliðnaðar talist viðbót við landsframleiðslu. Flestar atvinnugreinar byggja hins vegar tilvist sína í raun á slíkum grunnatvinnuvegum og geti því ekki einar og sér talist viðbót við landsframleiðslu.

Niðurstaða skýrslu Hagfræðistofnunar er sem fyrr segir að beint og óbeint framlag áliðnaðar til landsframleiðslu sé um 90 milljarðar króna á ári hverju, eða sem samsvarar nærri sjö prósentum af landsframleiðslu. Á árunum 2008 til 2012 er beint framlag áliðnaðar til landsframleiðslu um 3,2 prósent að meðaltali, óbeint framlag vegna raforkuframleiðslu tæp tvö prósent og óbeint framlag vegna annarra birgja um 1,7 prósent að meðaltali. Það munar um minna.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×