Skoðun

Kvíðir þú jólunum?

Sóley Dröfn Davíðsdóttir skrifar

Þegar má sjá ýmis merki þess að jólin séu í vændum og margir fá hnút í magann. Jólin, og undirbúningur þeirra, eru nefnilega allskonar hjá fólki og sjaldnast tóm sæla. Þó væntum við þess að við séum hamingjan uppmáluð á þessum tímabili. Aðrir virðast líka vera það, ef marka má samfélagsmiðla hið minnsta. Við sálfræðingar þekkjum það hins vegar að ekki er allt sem sýnist í þeim efnum. Í raun erum við enn viðkvæmari í aðdraganda jóla og engu líkara en að við berum taugakerfið utan á okkur. Allar tilfinningarnar magnast upp, góðar sem slæmar, og á okkur sækja minningar um liðin jól. Væntingar okkar um hvernig hlutir eigiað vera, og hvernig okkur eigi að líða á þessum árstíma gera okkur líka erfitt fyrir. Sálfræðingur nokkur kallaði þessar væntingar „harðstjórn ættanna“. Þar átti hann við þær ósveigjanlegu hugmyndir sem við höfum um hvernig hlutir ættuað vera, og verðum fyrir vonbrigðum þegar raunveruleikinn er annar. Líklega erum við sjaldan íhaldsamari en einmitt um jólin, þegar við viljum hafa allt eins og það á að vera. Við höfum líka þær væntingar til lífsins að okkur haldist á hlutum, til dæmis peningum og sér í lagi fólki, og eigum erfitt með að sættast við gang lífsins að þessu leyti. Ástvinamissir er eitt af því sem vekur upp vanlíðan í aðdraganda jóla, sem og sambandsslit, einangrun og ágreiningur. Margir kvíða fjárútlátunum enda getur verið erfitt verið að standa undir væntingum annarra til veglegra gjafa. Matarverð hefur aldrei verið hærra og það kostar sitt að halda dýrindis veislur, sem og að taka þátt í því félagslífinu sem vænst er. Það er líka sársaukafullt ef engu slíku er til að dreifa. Veikindi hjá okkur sjálfum eða öðrum setja líka strik í reikninginn, enda á stálslegið fólk fullt í fangi með það að komast yfir allt. Eins geta þeir sem búa við vímuefnaneyslu kviðið þess ástands sem skapast getur yfir hátíðarnar. Svo ber að hafa í huga, að atburðir, sem alla jafna teljast jákvæðir eins og það að gifta sig, ferma eða halda jól, eru streituvaldar engu að síður. Það getur nefnilega orðið fullmikið af því góða í aðdraganda jóla.

En hvað er til ráða ef manni líður ekki sem best á þessu tímabili? Gott er að minna sig á að maður er ekki einn um það. Mörgum líður illa og hafa fyrir góðar ástæður. Lítið er að marka færslur á samfélagsmiðlum. Sjaldnast birtir fólk raunsanna mynd af því sem er í gangi, eins og að allt sé í drasli heima hjá því, undirmannað í vinnunni, húslyklarnir týndir og kortér í mætingu á tónleika. Líklega mættu færslurnar á samfélagsmiðlum vera einlægari en raun ber vitni. Svo má minna sig á það að jólin þurfa ekkert að vera æðisleg og það er eðlilegt að líða stundum illa. Þetta eru örfáir dagar sem taka fljótt af og hjá flestum koma jól eftir þessi jól. Má ekki bara leggja minna upp úr jólaundirbúningi? Koma verkefnum yfir á aðra og leyfa sér að gera hlutina til hálfs? Leyfa sér að gleyma eða klúðra einhverju og sjá hvað gerist? Það þarf meiri kjark í slíkt, en að reyna í sífellu að standast væntingar sjálfs og annarra. Það þarf ekki svo mikið til að eiga góðar stundir. Fátt er hátíðlegra en að eiga andrými í skammdeginu við kertaljós, lestur eða rólega tónlist. Þegar upp er staðið eru það notalegar samverustundir, sem maður á með sjálfum sér eða öðrum, sem eru eftirminnilegar, en ekki dýrindis gjafir. Þótt ekki megi gera lítið úr því álagi sem peningaleysi skapar. Slökum aðeins á og minnum okkur á það sem máli skiptir. Hugum að þeim sem eru svipað, eða verr, settir en við, hérlendis sem erlendis, og gerum eitthvað fyrir þá, ef við erum aflögufær.

Höfundur er yfirsálfræðingur við Kvíðameðferðarstöðina.




Skoðun

Sjá meira


×