LA Lakers vann í nótt fínan sigur á Detroit í NBA-deildinni í körfubolta, 108-83, eftir heldur misjafnt gengi að undanförnu.
Lakers hafði tapað fjórum af síðustu sex leikjum sínum í deildinni en Pau Gasol fór fyrir liðinu að þessu sinni. Hann skoraði 21 stig. Lamar Odom var með sextán stig og Andrew Bynum þrettán.
Kobe Bryant komst upp í tíunda sæti á lista yfir stigahæstu leikmenn NBA-deildarinnar frá upphafi með sínum sautján stigum í leiknum. Hann tók fram úr Dominique Wilkins og hefur nú skorað alls 26.671 stig frá upphafi.
Trady McGrady og Greg Monroe voru með fjórtán stig hvor fyrir Detroit og Tayshaun Prince tólf. Þetta var fimmta tap liðsins fyrir Lakers í röð og hefur liðið aðeins unnið þrjá af nítján útileikjum sínum á tímabilinu til þessa.
Chicago vann Toronto, 111-91. Derrick Rose var með nítján stig og gaf þar að auki sex stoðsendingar.
Miami vann Milwaukee, 101-89. Dwyane Wade skoraði 34 stig og LeBron James bætti við 25 stigum og tók þar að auki níu stoðsendingar. Þetta var nítjándi sigur liðsins í síðustu 20 leikjum þess.
New York vann San Antonio, 128-115. Wilson Chandler skoraði 31 stig fyrir New York.
Dallas vann Portland, 84-81. Jason Terry skoraði átján stig fyrir Dallas, þar af tólf í fjórða leikhluta. DeShawn Stevenson skoraði einnig átján stig.
Memphis vann Oklahoma City, 110-105. Zach Randolph skoraði 31 stig, þar af þrettán í fjórða leikhluta, fyrir Memphis.
Atlanta vann Sacramento, 108-102. Jamal Crawford skoraði 31 stig fyrir Atlanta og Joe Johnson 29 stig.