Rúnar Kristinsson varð aldrei Íslandsmeistari sem leikmaður en gerði meistaraflokk karla hjá KR að tvöföldum meisturum í sumar. Hann hefur nú bætt einum titlinum enn í safnið - og nú sem leikmaður.
KR varð um helgina Íslandsmeistari 40 ára og eldri eftir 3-0 sigur á ÍR í úrslitaleik. Rúnar skoraði eitt marka KR í leiknum en Karl Dúi Karlsson hin tvö. Frá þessu er greint á heimasíðu KR.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, spilaði einnig með KR-ingum í leiknum en Heimir er uppalinn KR-ingur og spilaði með Rúnari í yngri flokkum félagsins. Fleiri kempur spiluðu með KR í leiknum, eins og Þormóður Egilsson, Þorsteinn Halldórsson, Guðmundur Hreiðarsson, Ívar Guðmundsson og Baldur Stefánsson.
KR varð einnig Íslandsmeistari 50 ára og eldri á dögunum eftir sigur á Fylki í úrslitaleik. Karl Dúi skoraði einnig í þeim leik.
