Kristján Finnbogason, fertugur markvörður Gróttu, hélt hreinu á móti lærisveinum Guðjóns Þórðarsonar í BÍ/Bolungarvík í leik liðanna í 1. deild karla í dag. Grótta vann leikinn 1-0 og fagnaði þar með fyrsta sigri sínum í deildinni í sumar.
Viggó Kristjánsson kom inn á sem varamaður eftir klukkutíma leik og skoraði sigurmarkið sextán mínútum síðar. Kristján varði vel í leiknum og sýndi að hann hefur engu gleymt.
BÍ/Bolungarvík hafði unnið tvo síðustu leiki sína og átti möguleika á því að komast upp að hlið Skagamanna á toppnum. Grótta fór hinsvegar upp í sjötta sætið með þessum sigri.
Það var einmitt Guðjón Þórðarson sem gaf Kristjáni fyrsta tækifærið á Skaganum sumarið 1992 og tók hann síðan með sér yfir í KR þegar Guðjón tók við Vesturbæjarliðinu 1994.
Upplýsingar um markaskorara eru af fótbolti.net.

