Dallas Mavericks jafnaði í nótt metin í lokaúrslitum NBA-deildarinnar í körfubolta eftir tveggja stiga sigur á Miami á útivelli, 95-93, í frábærum leik. Staðan er því 1-1 í rimmu liðanna en næstu þrír leikir liðanna fara fram í Dallas.
Jafnræði var með liðunum framan af og var staðan jöfn í hálfleik, 51-51. Miami náði þó fljótt undirtökunum í síðari hálfleik og komst mest fimmtán stigum yfir í fjórða leihkluta, 88-73, þegar rúmar sjö mínútur voru til eiksloka.
Miami hefur einmitt reynst ógnarsterkt á lokasprettum sinna leikja í úrslitakeppninni en nú var komið að Dirk Nowitzky og félögum í Dallas. Þeir fóru á 17-2 sprett og komust þremur stigum yfir þegar að Nowitzky setti niður rándýran þrist þegar hálf mínúta var eftir.
En þá virtist grípa um sig stundarbrjálæði í varnarleik Dallas því að Mario Chalmers var skilinn eftir galopinn í hægra horninu. Hann fékk boltann og náði að jafna metin, 93-93.
Nowitzky var skiljanlega brjálaður og þá kannski helst út í Jason Terry sem skildi Chalmers eftir. En hann fékk boltann í næstu sókn, fíflaði Chris Bosh sem var að reyna að verjast gegn honum, labbaði upp að körfunni og kom sínum mönnum aftur yfir.
Miami hafði þó tíma fyrir eina sókn í viðbót og fékk Dwyane Wade, sem var frábær í leiknum, boltann. Hann náði þó ekki að koma sér í nægilega gott færi og klikkaði á þriggja stiga skotinu sem annars hefði tryggt Miami sigurinn í leiknum og þar með 2-0 forystu í rimmunni.
Þetta var gríðarlega þýðingarmikill sigur fyrir Dallas sem fær næstu þrjá leiki á heimavelli og getur þar með tryggt sér titililnn þar. Nowitzky var að spila meiddur á fingri á vinstri hönd en lét það ekki á sig fá. Hann skoraði 24 stig í leiknum og Shawn Marion var einnig mjög sterkur með 20 stig. Terry var með sextán.
Hjá Miami var Wade með 36 stig og LeBron James 20. Chris Bosh átti ekki góðan leik og skoraði tólf stig. Hann nýtti aðeins fjögur af sextán skotum sínum í leiknum.
Þriðji leikur liðanna verður á aðfaranótt mánudags.
ÍR
Haukar