Rajon Rondo, leikstjórnandi Boston Celtics sýndi mikla hörku og fórnfýsi í 97-81 sigri Boston á Miami Heat í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í nótt. Rondo lenti illa í þriðja leikhluta og fór úr olnbogalið. Hann fór inn í búningklefa þar sem olnboganum var aftur kippt í liðinn og Rondo kom síðan til baka og kláraði leikinn.
„Það fyrsta sem ég heyrði var að hann væri úr lið og tímabilið væri jafnvel búið," sagði Doc Rivers, þjálfari Boston. "30 sekúndum seinna sá ég Rondo labba á bekkinn og hann leit út eins og hann ætlaði að spila. Það kveikti í öllu liðinu og það var frábært að sjá hann aftur út á vellinum," sagði Rivers.
„Hann sýndi að hann er einn harður nagli," sagði Kevin Garnett, liðsfélagi Rondo hjá Boston. Rondo gat þó lítið sem ekkert notað vinstri hendina sína eftir atvikið en hann gat samt stýrt liðinu til sigurs.
Rondo meiddist eftir að Dwyane Wade braut á honum og áhorfendur í Boston púuðu á Wade það sem eftir var leiksins. Rondo missti jafnvægi og setti hendina fyrir sig með fyrrnefndum afleiðingum.
Rondo skoraði 4 af 6 stigum sínum í fjórða leikhlutanum en hann var einnig með 11 stoðsendingar. „Ég var ekki að reyna skora mikið heldur hugsaði ég bara um að stýra liðinu og til þess notar maður muninn og fæturna," sagði Rondo.
Körfubolti