Ólátabelgurinn Dennis Rodman er á meðal þeirra sem teknir voru inn í Frægðarhöll körfuboltans, Hall of fame, á þessu ári. Rodman er einn skrautlegasti leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar en hann var einnig afar farsæll.
"Þetta er alveg ótrúlegt," sagði Rodman sem var tvisvar valinn besti varnarmaður deildarinnar og varð fimm sinnum meistari.
Tíðindin komu Rodman á óvart því hann grunaði að atferli hans utan vallar gætu aftrað því að hann fengi sinn sess í Frægðarhöllinni.
"Ég leit á sjálfan mig og hvernig ég haga mér. Ég átti ekki von á því að komast inn," sagði Rodman heiðarlega.
Aðrir sem voru valdir inn í Frægðarhöllina á þessu ári voru Chris Mullin, Tex Winter, Herb Magee, Arvydas Sabonis, Teresa Edwards, Reese Tatum og Tom Sanders.
Körfubolti