Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, hefur tilkynnt byrjunarliðið er mætir Dönum á Algarve á morgun, mánudaginn 7. mars, kl. 15:00. Sigurður gerir tvær breytingar frá því í sigurleiknum gegn Kína á föstudaginn.
Þóra Björg Helgadóttir kemur í markið í staðinn fyrir Guðbjörgu Gunnarsdóttur og Dóra María Lárusdóttir kemur inn á hægri kantinn fyrir Fanndísi Friðriksdóttur.
Íslenska liðið er í efsta sæti B riðils með sex stig en Danir og Svíar eru með þrjú stig. Með jafntefli þá tryggir liðið sér sæti í úrslitaleik mótsins gegn Bandaríkjunum.
Fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir er sem fyrr í byrjunarliðinu en hún leikur sinn 105. landsleik og setur þar með nýtt landsleikjamet.
Dóra María Lárusdóttir er að leika sinn fyrsta leik á mótinu en hún gat ekki spilað tvo fyrstu leikina vegna meiðsla.
Byrjunarliðið á móti Dönum:Markvörður: Þóra Helgadóttir
Hægri bakvörður: Þórunn Helga Jónsdóttir
Vinstri bakvörður: Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir
Miðverðir: Sif Atladóttir og Katrín Jónsdóttir, fyrirliði
Tengiliðir: Edda Garðarsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir
Sóknartengiliður: Katrín Ómarsdóttir
Hægri kantur: Dóra María Lárusdóttir
Vinstri kantur: Hallbera Guðný Gísladóttir
Framherji: Margrét Lára Viðarsdóttir
