Heil umferð fer fram í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Spennan á toppi og botni deildarinnar eykst en Leiknir vermir efsta sætið fyrir leiki kvöldsins.
Breiðhyltingar hafa komið mörgum á óvart og eru með tveggja stiga forystu á Víkinga. Leiknir sækir Gróttu heim á Seltjarnarnesið í kvöld á meðan Víkingar fara upp á Skaga og spila við ÍA.
Þórsarar eru aðeins tveimur stigum frá Víkingum og mæta Akureyringarnir Þrótti á útivelli í kvöld. ÍR er enn í baráttu um sæti í efstu deild, þeir eru einu stigi á eftir Þór með 29 stig og leika gegn Fjölni á heimavelli.
Við botninn er Njarðvík í neðsta sætinu en Suðurnesjamenn heimsækja HK í kvöld. Fjarðabyggð hefur jafn mörg stig og Njarðvík og Austfirðingar eiga útileik gegn KA á Akureyri.
Allir leikirnir hefjast klukkan 19.00.
