Eiður Smári Guðjohnsen fær frí frá stórleikjunum við Norðmenn og Dani af því hann er ekki búinn að finna sér félag til að spila með í vetur. Þetta segir landsliðsþjálfarinn Ólafur Jóhannesson.
Eiður er sem kunnugt er ekki í leikmannahópnum sem tilkynntur var í dag.
"Málið er að hann er á milli liða og er hvergi að spila. Það er ástæðan fyrir því að ég valdi hann ekki," sagði Ólafur.
Ástæðan er ekki sú að hann er ekki í leikformi?
"Við ræddum saman og niðurstaðan er þessi. Það er í sjálfu sér ekkert meira um það að segja," sagði landsliðsþjálfarinn sem vildi ekkert segja um viðbrögð Eiðs.
En af hverju var hann þá valinn í leikinn gegn Liechtenstein fyrir tveimur vikum?
"Þá valdi ég mitt besta lið og var að skoða leikmenn og annað. Það hefur ekkert með þennan leik að gera."
Væru þessir leikir í undankeppninni semsagt að trufla hann í því að finna sér félag?
"Eins og ég sagði áðan, leikurinn gegn Liechtenstein kemur valinu á þessu liði ekkert við. Eiður er frá í þessum mánuði," sagði Ólafur að lokum.
Eiður er ekki hættur með landsliðinu að sögn Ólafs sem vonast til að geta valið hann síðar.
Eiður ekki með af því hann er á milli félaga - ekki útaf leikforminu

Tengdar fréttir

Ólafur hristir upp í landsliðinu - Eiður Smári ekki valinn
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, valdi í dag landsliðshópinn fyrir leikina gegn Noregi og Danmörku í undankeppni EM. Leikirnir fara fram 3. og 7. september.