Skoðun

Berlín

Að Berlín væri gjöreyðilögð í stríðinu var okkur ungmennum þeirra ára harla lítið undrunarefni. Í þessu síðasta vígi Hitlers voru ótrúlega illvígir bardagar fanatískra þýskra hersveita við rússneska herinn og eftir stóðu rústir einar. Berlín sýndist manni af fréttamyndum ekki annað en steinhrúga. Um tuttugu árum síðar gafst höfundi þessara lína tækifæri að heimsækja borgina, þá hersetna af sigurvegurunum en múrinn skildi að Vestur og Austur Berlín.

Farið var í gegnum hinn fræga Check Point Charlie inn í þýska Alþýðulýðveldið. Í endurreisninni var um að ræða tvær borgir, að vísu aðskildar en þó samvaxnar og hvor mjög svo með sínum brag, önnur spennandi, hin grá og leiðinleg; vesturhlutinn var birtingarmynd allsnægta fyrir hina fangelsuðu austurbúa. Ekki var útlit fyrir annað en að hin tilkomulitla Bonn yrði höfuðborg Vestur Þýskalands um ókomin ár En 1989 féll Berlínarmúrinn, Þýskaland sameinast 3. október 1990 og með Berlín að höfuðborg þá hina sömu og fyrrum varð til sem stórborg á keisaratímanum.

Berlín varð að rísa að nýju og gefur það borginni sérstakan sess meðal stórborga eins og París, London og Washington. Um 80 % miðborgarinnar var eyðimörk eftir stríðið og einu mesta byggingarátaki sögunnar er það að þakka að þarna er núna nær 4 milljóna manna glæsileg nýtískuborg. Og höfuðborg Þýskalands, stærsta aðildarríkis Evrópusambandsins, sómir sér vel á vatnaskilum sinnar erfiðu fortíðar og bjartrar framtíðar nýrrar Evrópu.

Brandenborgarhliðið sem áður var á mörkum Austur og Vestur Berlínar er táknrænt nýtt hlið við að þungamiðja Evrópusambandsins hefur færst til austurs. En það verður heldur ekki hlaupið frá fortíðinni. Átakanlegt geypistórt minnismerki er um milljónir gyðinga sem myrtir voru af mönnum Hitlers. Sýnishorn er af múrnum og Checkpoint Charlie. Því geyma Þjóðverjar þessa fortíð og sinna nýju hlutverki. Þeirra er stærsta hagkerfi Evrópusambandsins sem hefur notið hins frjálsa innri markaðs um vöxt og viðgang undanfarna áratugi.

Ein afleiðing söguþróunarinnar þegar Þýskaland sameinast og höfuðborgin flyst til Berlínar, var að samvinna Norðurlandanna tók á sig nýja og glæsilega mynd. Tekið var höndum saman um að byggja þar sameigninlega sendiráðsskrifstofur landanna fimm. Hvergi er sendiráð Íslands betur sett en í því samfélagi. Höfundur átti þess kost fyrir skemmstu að heimsækja þarna hinn margreynda sendiherra Gunnar Snorra Gunnarsson, fyrrum ráðuneytisstjóra, og starfslið hans.

Ánægjulegt var að geta kynnst því að í þessu sameiginlega sendiráðasvæði hefur á röskum áratug áunnist sterk staða í Þýskalandi hvort sem er í stjórnmálatengslum, viðskiptum eða menningarlegri útbreiðslu. Og starf sendiráðsins í Berlín er sömuleiðis rækt eftir föngum í Póllandi, Króatíu, Serbíu og Montenegró. Sé litið til austurs er Berlín ákjósanlegur staður.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×