Nú kann Ólafur Ragnar vafalaust svör við þessu öllu:
- að hann hafi aldrei sagt að Rússar eigi að fá Keflavíkurflugvöll.
- að hann hafi aldrei sagt að Íslendingar væru betri fjármálamenn en aðrir.
- að hann hafi aldrei sagt að það væri alveg að koma Kötlugos.
- að hann hafi aldrei sagt að Kaupþing myndi ekki gera upp Edge-reikningana.
- að hann stökkvi aldrei á næsta hljóðnema merktan alþjóðlegri fréttastofu
- að það sé misskilningur að hann hafi gagnrýnt skýrslu rannsóknarnefndarinnar.
Í framhaldi af umræðum um skýrslu rannsóknarnefndarinnar hefur verið bent á nauðsyn þess að endurskoða rammann um forsetaembættið: Það eigi að setja siðareglur um embættið, að það eigi að setja lög um embættið og að það eigi að endurskoða stjórnarskrárákvæðin um embættið. Það hefur jafnvel heyrst oftar en áður að embættið eigi að leggja niður; það sé þarflaust tildurembætti. Þá benda aðrir á að það þurfi að vera hægt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur. En það er mál sem Alþingi á að ákveða og það á þá að breyta stjórnarskránni þannig að minnihluti Alþingis - stór minnihluti - geti kallað fram þjóðaratkvæði.
Allt þetta og fleira kemur upp í hugann þessa dagana. Aðalatriðið að þjóðin vill að forsetaembættið sé sameiningartákn. Eins og í tíð Kristjáns og Vigdísar.