Skoðun

Hundrað–múrinn rofinn!

Anna Björg Jónsdóttir skrifar

Við sem störfum í kerfinu höfum beðið eftir þessum degi, ekki með spenningi og eftirvæntingu eins og oftast er þegar ákveðnum áfanga er náð heldur með kvíðahnút í maga og sorg í hjarta.

Í vikunni gerðist það nefnilega að það eru fleiri en 100 ömmur og afar að bíða á Landspítala eftir varanlegu hjúkrunarúrræði og engu öðru. Fyrir utan þessa 108 einstaklinga sem bíða innan veggja Landspítala eru rúmlega hundrað sem bíða í svokölluðum biðrýmum á ýmsum heilbrigðisstofnunum á höfuðborgarsvæðinu og svo eru ennþá fleiri einstaklingar sem bíða heima.

Það eru margar ástæður fyrir því að við sem samfélag erum í þessari stöðu en við getum og verðum að breyta þessu.

Nú eru sveitarstjórnarkosningar í nánd og það er mikilvægt að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu geri sitt til að styðja við forvarnir og félagslega þjónustu við eldri borgara. Það er líka mikilvægt að ríkið styðji við uppbyggingu úrræða eins og hjúkrunarrýma, endurhæfingarrýma og dagúrræða.

Með auknum krafti í þjónustu heim, bæði á vegum ríkis og sveitarfélaganna, getum við gert þeim sem bíða eftir varanlegu hjúkrunarrými lífið auðveldara á meðan, og skapað öryggi fyrir þau og fjölskyldur þeirra. Að sama skapi getum við líka fækkað þeim sem þurfa á þessu úrræði að halda.

Við þurfum allar þessar lausnir og við þurfum þær núna!

Höfundur er yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítala.




Skoðun

Sjá meira


×