Erlent

Sendir her­skipa­flota að Íran og hótar „of­beldi“

Kjartan Kjartansson skrifar
Af þilfari bandaríska flugmóðurskipsins Abrahams Lincoln. Það er sagt komið til Persaflóa og tilbúið til árása á Íran.
Af þilfari bandaríska flugmóðurskipsins Abrahams Lincoln. Það er sagt komið til Persaflóa og tilbúið til árása á Íran. Vísir/EPA

Bandarískur herskipafloti nálgast Íran og hótar Bandaríkjaforseti því að tíminn sé að renna út fyrir írönsk stjórnvöld að semja um kjarnorkuvopnaáætlun þeirra. Íranar segjast reiðubúnir til viðræðna en þeir séu einnig að verjast af festu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti skrifaði hótanir sínar í færslu á persónulegum samfélagsmiðli í dag. Sagði hann herskipaflotann sigla „hratt, með miklum krafti, áhuga og staðfestu“ í átt að Íran.

„Vonandi kemur Íran fljótt „að borðinu“ og gerir sanngjarnt og réttlátt samkomulag — ENGIN KJARNORKUVOPN,“ skrifaði forsetinn. 

Flotinn væri stærri en sá sem stjórn hans hefði sent að Venesúela sem Bandaríkjastjórn heldur nú í herkví. Hann væri tilbúinn að beita ofbeldi til þess að ná markmiðum hans.

Vísaði forsetinn svo til loftárása Bandaríkjamanna á kjarnorkustöðvar í Íran í fyrra.

„Næsta árás verður miklu verri. Ekki láta það gerast aftur,“ skrifaði forsetinn sem er afar ósáttur við að hafa ekki hlotið friðarverðlaun Nóbels í fyrra.

Svo virðist sem að bandaríska flugmóðurskipið Abraham Lincoln sé komið til Miðausturlanda. Heimildir breska ríkisútvarpsins innan bandaríska varnarmálaráðuneytisins herma að skipið sigli fremst í herskipaflota þar.

Sendinefnd Írans hjá Sameinuðu þjóðunum brást við hótunum með því að segja að stjórnvöld í Teheran væru tilbúin til viðræðna sem byggðust á gagnkvæmri virðingu og hagsmunum. Þau væru aftur á móti tilbúin að verja sig „sem aldrei fyrr“ ef þeim væri ógnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×