Skoðun

Hjóla – og göngu­stígar í Reykja­vík: Metnaður á pappír, en brota­kennd fram­kvæmd

Gunnar Einarsson skrifar

Reykjavíkurborg hefur um árabil talað fyrir auknum virkum samgöngum og sett sér metnaðarfull markmið um uppbyggingu hjóla - og göngustíga. Í stefnumótandi skjölum er áherslan skýr: öruggari, heilbrigðari og vistvænni borg. Þegar komið er út á stígana blasir hins vegar við önnur mynd, þar sem skortur er á samfellu, skýrri hönun og viðhaldi grefur undan trausti og notagildi kerfisins. 

Víða í borginni má finna dæmi um hjólastíga sem virka vel á stuttum köflum en missa síðan tilgang sinn. Hjólastígar við Sæbraut og í Elliðaárdal eru oft nefndir sem dæmi um jákvæð dæmi, en tengingar þar á milli eru ófullnægjandi. Hjólreiðafólk sem reynir að ferðast á milli hverfa lendir gjarnan í því að stígar hverfa skyndilega eða breytast í óskýr samnýtingarsvæði á gangstéttum, til dæmis við Miklubaut,Kringlumýrarbraut og víða í Vesturbænum. 

Á Hringbraut hefur verið lögð áhersla á borgarlínu og endurhönnun rýmis,en útfærslur fyrir hjólandi og gangandi hafa valdið gagrýni. Þar eru kaflar þar sem hjólastígar liggja mjög nálægt gangandi umferð, stoppistöðvum og þverunum, sem eykur hættu á árekstrum og skapar óþarfa óöryggi. Slík hönnun krefst mikillar athygli frá notendum og hentar illa börnum, eldri borgurum eða óvönu hjólreiðafólki. 

Óskýr aðgreining gangandi og hjólandi vegfarenda er eitt stærsta vandamálið. Við gönguleiðir eins og Ægisíðu, Nauthólsvík og strandstíginn í Fossvogi eru stígar vinsælir og mikið notaðir, en þar deila gangandi, hjólandi og hlaupahjólanotendur oft sama rými án nægilegrar breiddar eða merkingar. Afleiðingin er stöðug togstreita milli notendahópa, þar sem enginn virðist eiga stíginn að fullu. 

Viðhald er einnig ábótavant. Víða má nefna sprungur, ójöfnur og vatnssöfnun, til dæmis á eldri stígum í Breiðholti og Árbæ. Á veturna vesnar staðan enn, þegar snjómokstur og hálkuvarnir á hjóla- og göngustígum sitja oft á hakanum miðað við akbrautir. Þetta sendir skýr skilaboð um forgangsröðun og dregur úr því að fólk treysti sér til að nýta stígana allt árið. 

Það sem vantar hvað mest er heildstæð sýn og skýr ábyrgð. Framkvæmdir virðast oft vera unnar í áföngum án þess að notendur sjái hvernig einstök verkefni tengjast í samfelldu neti. Samráð við þá sem nýta stígana daglega – hjólreiðafólk, gangandi vegfarendur, foreldra með barnavagna og fólk með skerta hreyfigetu – mætti vera mun markvissara. 

Reykjavík hefur alla burði til að byggja upp hjóla-og göngustígakerfi sem stenst samanburð við aðrar evrópskar borgir. Til þess þarf þó að hætta að líta á stígana sem aukaverkefni og fara að meðhöndla þá þar sem þeir eru: lykilinnviði í nútímalegu borgarsamfélagi. 

Án raunverulegrar samfellu, skýrrar aðgreiningar og ábyrgðar í viðhaldi munu hjóla – og göngustígar áfram vera tákn um góðan ásetning – og raunhæfan valkost fyrir borgarbúa. 

Höfundur er meðlimur í Flokki Fólksins. 




Skoðun

Sjá meira


×