Innlent

Ráðu­neytið vill að fleiri bjóði sig fram

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Eyjólfur Ármannsson er innviðaráðherra.
Eyjólfur Ármannsson er innviðaráðherra. Vísir/Vilhelm

Innviðaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa hrundið af stað átaki til að auka þátttöku almennings í sveitarstjórnarkosningunum sem fram undan eru. Markmiðið er bæði til að fá fleiri til að bjóða sig fram og að fá fleiri til að greiða atkvæði.

Í tilkynningu frá stjórnarráðinu segir að sérstök áhersla verði lögð á þá hópa sem hingað til hafa tekið síður þátt, bæði í framboði og greiðslu atkvæða. 

„Samkomulag um átakið var undirritað í dag á grundvelli aðgerðar 8 í stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024-2028, sem hefur það að markmiði að stuðla að aukinni kosningaþátttöku og almennri lýðræðisþátttöku íbúa,“ segir í tilkynningunni.

Fyrri hluti átaksins nær til framboða í sveitarstjórnarkosningum. Markmiðið er að hvetja nýtt fólk til þátttöku í stjórnmálum á sveitarstjórnarstigi en einnig að stuðla að þátttöku kjörinna fulltrúa í því skyni að viðhalda þekkingu og reynslu innan sveitarstjórna.

Í síðari hluta átaksins verður unnið að því að hvetja almenning til að greiða atkvæði í kosningunum. Það verður gert með því að fræða fólk um hlutverk sveitarstjórna og sérstaklega verður dregið fram hvers vegna það skipti máli að kjósa.

Umræddir hópar sem eru með minnsta kosningaþátttöku eru til að mynda ungt fólk og innflytjendur.

„Sveitarstjórnarstigið sinnir margvíslegri nærþjónustu sem hefur bein áhrif á daglegt líf íbúa – frá skipulagsmálum og grunnþjónustu til leik- og grunnskóla, velferðarþjónustu og félagslegra úrræða. Með því að nýta kosningarétt sinn fá íbúar tækifæri til að hafa áhrif á samfélag sitt, hvernig það þróast og hverjir taka ákvarðanir um þau málefni sem snerta þá helst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×