Erlent

Danir standi á kross­götum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mette Frederiksen hyggst ekki láta undan hótunum Bandaríkjanna.
Mette Frederiksen hyggst ekki láta undan hótunum Bandaríkjanna. Getty

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segir landið standa á krossgötum. Mikið sé í húfi en ef það sé raunverulega þannig að Bandaríkjamenn hyggist snúa baki við bandamönnum sínum með því að hafa í hótunum við annað Atlantshafsbandalagsríki, sé öllu lokið.

Ummælin lét ráðherrann falla í Nyborg í gær en í vikunni munu utanríkisráðherrar Danmerkur og Grænlands, Lars Løkke Rasmussen og Vivian Motzfeldt, funda með Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og aðrir ráðamenn vestanhafs hafa hótað því á síðustu misserum að Grænland muni verða eign Bandaríkjanna. „Við munum gera eitthvað varðandi Grænland, annað hvort með góðu eða illu,“ sagði Trump síðast á föstudag.

Hann hefur ítrekað neitað að útiloka hernaðaríhlutun, þrátt fyrir að flestum þyki ólíklegt að til þess muni koma. Þá hafa yfirlýsingar hans og annarra í ríkisstjórn hans mætt harðri andstöðu á bandaríska þinginu.

Frederiksen sagði í gær að þrátt fyrir að hún hefði hitt Trump frá því að þau ræddu Grænland fyrir ári síðan þá hefði það ekki borið á góma. Danir myndu standa fastir fyrir þegar kæmi að Grænlandi og hefðu fundið fyrir miklum stuðningi frá öðrum bandamönnum.

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svía, tjáði sig einnig um málið um helgina og sagði Svía munu styðja Dani. Bandaríkin ættu frekar að þakka Dönum fyrir langvarandi stuðning frekar en að hafa í hótunum.

Stjórnvöld í Svíþjóð tilkynntu í gær að þau hygðust leggja 15 milljarða sænskra króna í loftvarnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×