Innlent

Stofna ný sam­tök gegn ESB aðild

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Ögmundur Jónasson hélt erindi á stofnfundinum í dag.
Ögmundur Jónasson hélt erindi á stofnfundinum í dag. Junía Líf Maríuerla Sigurjónsdóttir

„Til vinstri við ESB“ heita ný samtök sem stofnuð voru í dag, en í tilkynningu segir að samtökin hafni aðild að Evrópusambandinu og markmið þeirra sé að standa gegn tilraunum til að innlima Ísland í Evrópusambandið.

Í fréttatilkynningu þess efnis segir að tugir manna hafi sótt stofnfundinn í dag og fjöldi fólks tekið þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Heimasíða hafi verið sett á laggirnar, en unnið sé að uppsetningu hennar.

Framkvæmdastjórn nýju samtakanna skipa:

  • Formaður - Þorsteinn Bergsson, Egilsstaðir.
  • Varaformaður - Guðbjörg Sveinsdóttir, Kópavogur.
  • Ritari - Margrét Pétursdóttir, Hafnarfjörður.
  • Gjaldkeri - Ágúst Valves Jóhannesson, Kópavogur.
  • Meðstjórnandi - Jökull Sólberg Auðunsson, Reykjavík.

Til vara:

  • Bjarni Harðarson, Selfoss.
  • Þorleifur Gunnlaugsson, Hveragerði.
  • Sjöfn Ingólfsdóttir, Reykjavík.

Aðrir í aðalstjórn:

  • Anna Gunnlaugsdóttir, Reykjavík.
  • Árni Daníel Júlíusson, Reykjavík.
  • Ásdís Helga Jóhannesdóttir, Kópavogur.
  • Baldvin H. Sigurðsson, Akureyri.
  • Guðmundur Auðunsson, Bretland.
  • Hjálmdís Hafsteinsdóttir, Hveragerði.
  • Sólveig Anna Jónsdóttir, Reykjavík.
  • Tinna Þorvalds Önnudóttir, Reykjavík
  • Þórarinn Magnússon, Skagafjörður

Samtökin byggi á eftirfarandi stefnuyfirlýsingu sem samþykkt var samhljóða á fundinum:

  • Samtökin vilja að Ísland leggi lóð sín á vogarskálar friðar, lýðræðis og mannúðar og beiti sér jafnframt gegn arðráni nýlenduvelda, bæði gamalla og nýrra.
  • Fámenn þjóð getur gegnt þýðingarmiklu hlutverki í veröld þar sem nýlendustefna sækir í sig veðrið sem aldrei fyrr og ófriðarblikur eru á lofti.
  • Við leggjum upp úr alþjóðlegu samstarfi á sviði vísindarannsókna, menningar og mennta og viljum styrkja og efla þær alþjóðlegu stofnanir sem ætlað er að sinna slíku hlutverki.
  • Sérhverri þjóð ber að horfa til þess hvar hún geti best orðið að gagni í samfélagi þjóðanna. Íslendingar hafa getið sér gott orð fyrir framlag á sviði jafnréttis- og annarra mannréttindamála, hafréttarmála, eldfjallarannsókna og vinnslu grænnar orku svo nokkrir þættir séu nefndir um uppbyggilegt og mikilvægt starf í alþjóðlegri samvinnu.

„Samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði (EES) hefur tvímælalaust orðið óhagstæðari með þeim breytingum sem hann hefur tekið frá því hann var undirritaður á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar – var hann þó alla tíð gagnrýni verður,“ segir í fréttatilkynningunni.

„Þeir fyrirvarar sem samningamenn Íslands reyndu að setja til varnar stjórnarskránni og sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar hafa verið látnir víkja hver á fætur öðrum. Það sem átti að verða samningur hefur orðið að einhliða valdboði.“

Tugir sóttu fundinn.Junía Líf Maríuerla Sigurjónsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×