Innlent

„Ég er sátt“

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Ásthildur Lóa Þórsdóttir er nýr formaður þingflokks Flokks fólksins.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir er nýr formaður þingflokks Flokks fólksins. vísir/vilhelm

„Þetta leggst vel í mig. Þetta er stórt hlutverk og stærra en almenningur gerir sér oft grein fyrir. Ég hlakka til að takast á við þetta. Ég tek við þessu af Ragnari Þór og hann hefur verið einstaklega góður í þessu hlutverki svo ég stór fótspor að feta í.“

Þetta segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir í samtali við fréttastofu en hún er nýr formaður þingflokks Flokks fólksins eftir nýjasta ráðherrakapal flokksins. Inga kynnti uppröðunina á blaðamannafundi í húsakynnum flokksins í Grafarvogi í morgun. 

Inga Sæland mun taka við sem mennta- og barnamálaráðherra eftir að Guðmundur Ingi Kristinsson sagði af sér embætti í gær. Ragnar Þór Ingólfsson tekur við embætti Ingu og verður félags- og húsnæðismálaráðherra en Ásthildur Lóa Þórsdóttir tekur við af honum sem formaður þingflokks Flokks fólksins.

Sigurjón Þórðarson verður formaður fjárlaganefndar í stað Ragnars og á móti tekur Lilja Rafney Magnúsdóttir við formennsku í atvinnuveganefnd. Þingflokksformenn spiluðu stórt hlutverk á síðasta þingvetri þegar að það gekk erfiðlega að semja um þinglok vegna mikillar umræðu í kringum breytingu á veiðigjöldunum. Ásthildur segist tilbúin að taka slaginn.

„Ég er nú öllu vön í baráttu. Þetta verður örugglega áskorun en ég held að þetta verði einnig áhugavert og skemmtilegt. Ég er til í hvað sem er,“ segir Ásthildur ..

Eins og frægt er sagði Ásthildur af sér embætti barna- og menntamálaráðherra eftir umfjöllun um ástarsamband hennar við fimmtán ára dreng þegar hún var 22 ára. Þau eignuðust saman son þegar drengurinn var orðinn sextán.

Spurð hvort hún hafi vonast eftir því að fá boð að taka aftur við sínu fyrra embætti segist Ásthildur sátt með stöðuna.

„Það er ekkert launungarmál að ég sé mjög eftir menntamálaráðuneytinu en þetta var niðurstaðan og ég er sátt,“ segir hún og segist ekkert vera að velta því fyrir sér hvort hún taki við ráðuneyti í framtíðinni.

„Maður sinnir því vel sem manni er falið að gera og þetta hlutverk felur í sér traust og ég ætla mér að standa undir því,“ segir hún og bætir því við að hún ætli að leggja áherslu á gott samstarf á þingi.

„Þetta var ekki borið undir mig áður en ég heyrði af þessu um svipað leyti og Ragnar Þór, með að hann yrði ráðherra, sem ég fagna mjög. Það að ég yrði þingflokksformaður heyrði ég bara í gær.“

Ertu með góð ráð fyrir Ingu í nýju ráðuneyti?

„Inga er vön því að standa sig vel í því sem hún tekur sér fyrir hendur. Ef hún vill tala við mig þá er ég til taks fyrir hana. Hún er að fara í frábært ráðuneyti með frábæru fólki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×