Erlent

Krist­rún, Witkoff og Kushner á fundinum í París í dag

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Jared Kushner og Steve Witkoff verða fulltrúar Bandaríkjanna á fundi með bandalagsríkjum Úkraínu í París í dag. Þar verður líka Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í hópi evrópskra leiðtoga sem sækja fundinn.
Jared Kushner og Steve Witkoff verða fulltrúar Bandaríkjanna á fundi með bandalagsríkjum Úkraínu í París í dag. Þar verður líka Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í hópi evrópskra leiðtoga sem sækja fundinn. EPA/Vísir/Vilhelm

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra verður meðal leiðtoga sem sækja fund hins svokallaða bandalags hinna viljugu, það er ríkja sem styðja við varnarbaráttu Úkraínu, í París í Frakklandi í dag. Selenskí Úkraínuforseti sækir einnig fundinn en viðbúið er að það geri líka Steve Witkoff, sérstakur erindreki Bandaríkjaforseta gagnvart Úkraínu, og Jared Kushner, tengdasonur Trump forseta.

Fundurinn hefst síðdegis í dag og er gert ráð fyrir að hann geti staðið í nokkra klukkutíma en hann munu sækja fulltrúar um þrjátíu ríkja Evrópu og Ameríku auk sendinefnda. Til stendur að halda áfram að leita leiða til að binda enda á innrásarstríð Rússa í Úkraínu. Meðal annars er gert ráð fyrir að öryggistryggingar til handa Úkraínu og uppfærð friðaráætlun verði til umræðu á fundinum, sem síðan verði borin undir Rússa í von um að hægt verði að semja um vopnahlé.

Í færslu á samfélagsmiðlum í gær sagði Úkraínuforseti að vinna samninganefndar standi yfir nótt sem nýtan dag og að teymið hans sé reiðubúið til funda í Evrópu í vikunni, auk þess sem stöðugt samband sé við fulltrúa Bandaríkjastjórnar.

Samkvæmt bréfi sem sent var 35 sendinefndum fundarins, sem Reuters greinir frá í dag, er meðal annars lagt upp með að á fundinum verði leitast við að tryggja framlag hinna svokölluðu viljugu ríkja til að koma á fót fjölþjóðlegum liðsafla sem falið verði að tryggja öryggi Úkraínu ef til vopnahlés kemur við Rússa.

Reuters hefur eftir ónefndum evrópskum embættismanni að vonir standi til um að með sterkum öryggistryggingum af hálfu „hinna viljugu“ ríkja verði hægt að treysta betur skuldbindingar Bandaríkjanna gagnvart Úkraínu, sem til þessa hafa að mestu verið í formi tvíhliða viðræðna við Úkraínu.

Í aðdraganda fundarins hafa Rússar hins vegar haldið áfram árásum sínum á Úkraínu, en minnst tveir létust, þar á meðal almennir borgarar, í árásum Rússa á Úkraínu í nótt að því er segir í umfjöllun France 24. Eftir rétt rúman mánuð verða liðin fjögur ár frá allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu sem hófst þann 24. febrúar 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×