Erlent

„Ég neyðist til að segja það hreint út“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Mette Frederiksen bregst við hótunum Bandaríkjaforseta á beinskeyttan hátt.
Mette Frederiksen bregst við hótunum Bandaríkjaforseta á beinskeyttan hátt. Getty

„Ég neyðist til að segja það hreint út við Bandaríkin,“ segir Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur í stuttri en beinskeyttri yfirlýsingu sem hún birti á heimasíðu forsætisráðuneytisins í kvöld.

Yfirlýsinguna gefur hún út eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti ítrekaði það enn á ný að hann vilji innlima Grænland. Ummælin lét hann frá sér í viðtali við bandaríska miðilinn The Atlantic þar sem hann var inntur eftir því hvaða þýðingu árás Bandaríkjanna á Venesúela hefði fyrir Grænland.

Marco Rubio utanríkisráðherra var afdráttarlaus á blaðamannafundi í gær og fór mörgum orðum um það að nú væri forseti við völd sem léti slag standa. Þessi málflutningur utanríkisráðherrans og yfirlýsingar náinna samstarfsmanna Trump sama eðlis hafa ýft upp þann ugg sem fyrir var í Nuuk og Kaupmannahöfn.

„Það nær ekki nokkurri átt að segja að það sé nauðsynlegt Bandaríkjunum að innlima Grænland. Bandaríkin hafa engan rétt til að innlima eitt þriggja landa danska samveldisins,“ segir Mette eftir ofantalin upphafsorð.

„Konungsríkið Danmörk, og þar með Grænland, er hluti af Atlantshafsbandalaginu og nýtur því öryggistrygginga bandalagsins. Við höfum þegar varnarsamning milli konungsríkisins og Bandaríkjanna sem veitir Bandaríkjunum víðtækan aðgang að Grænlandi. Og við, af hálfu konungsríkisins, höfum fjárfest verulega í öryggismálum á norðurslóðum,“ segir hún svo.

„Ég vil því hvetja Bandaríkin eindregið til þess að hætta að hóta sögulega nánum bandamanni og öðru landi og annarri þjóð sem hefur sagt það mjög skýrt að hún sé ekki til sölu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×