Skoðun

Áramóta­heit þjóðarinnar: Tryggjum gæða­menntun!

Guðjón Hreinn Hauksson skrifar

Nýliðið ár stóðu allir kennarar landsins saman í harðri kjarabaráttu til að leiðrétta kjör einnar mikilvægustu stéttar á Íslandi. Krafa okkar var einföld, að laun okkar félagsfólks yrðu sambærileg launum annarra sambærilegra sérfræðinga á almennum launamarkaði. Kennarar báru gæfu til þess að sameinast í baráttunni. Leikskóla-, grunnskóla-, tónlistar- og framhaldsskólakennarar gengu samstíga fram og tóku skref í rétta átt.

Það var ekki átakalaust. KÍ stillti upp markvissum og skipulögðum aðgerðum og félagsfólk í Félagi framhaldsskólakennara lét sitt ekki eftir liggja. Fremst í flokki fóru kennarar og ráðgjafar í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi sem stóðu vaktina lengst í okkar hópi. Félagsfólk okkar í Menntaskólanum í Reykjavík steig svo duglega inn og loks tóku Borghyltingar, Snæfellingar, Akureyringar og Norðfirðingar snarpa sennu, en þá tókst loks að semja. Alls tóku um 400 félagsmenn FF beinan þátt í aðgerðum og kann ég þeim bestu þakkir fyrir. Þau sýndu mikinn baráttuvilja og -þrek og eiga mikinn heiður skilinn.

Verkefninu er hins vegar ekki lokið. Eftir samningana hófst ný vegferð þar sem störf félagsfólks verða virðismetin undir stjórn ríkissáttasemjara og Jafnlaunastofu. Sú vinna hefur verið mjög umfangsmikil og úrslitastund nálgast. Í október á nýbyrjuðu ári mun niðurstaða liggja fyrir. Að mínu mati er grundvallaratriði í þessari vinnu að allt Kennarasambandið standi áfram í órofinni samstöðu í verkefninu.

Fram undan eru fleiri áríðandi og krefjandi verkefni hjá kennurum þessa lands. Í framhaldsskólanum eru ýmsar blikur á lofti, sem félagið þarf að fylgjast með og bregðast við. Við þurfum að standa vörð um sjálfræði framhaldsskólanna. Við þurfum að standa vörð um faglegt sjálfstæði kennara. Við þurfum að tryggja að skólarnir geti haldið úti mannsæmandi stoðþjónustu við nemendur, efla náms- og starfsráðgjöf og kennsluráðgjöf. Við þurfum að tryggja að skólarnir og starfsfólk þeirra geti tæklað stöðugt flóknari verkefni við að koma ungdómi landsins til manns. Verkefnin eru ærin, en nefna má fjölbreyttari uppruna nemenda, mismunandi námsstöðu þeirra, mismunandi félagslega og sálræna stöðu þeirra, skort á kennsluefni við hæfi, nýtingu gervigreindar, styttingu athyglisspannar og ýmsar aðrar áskoranir sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir.

Aðalatriðið er þó að tryggja að nægu fjármagni verði varið til framhaldsskólastigsins, svo skólarnir og allt það frábæra fagfólk sem þar starfar, hafi svigrúm til að takast á við ofangreindar áskoranir. Þar blasir við grafalvarleg staða. Í fjármálaáætlun er 2,5 milljarða króna niðurskurður boðaður á næstu árum.

Það er í hróplegu ósamræmi við fjárhagsstöðu framhaldsskólanna eftir markvissan niðurskurð og vanfjármögnun síðustu ára.

Það er í hróplegu ósamræmi við orð mennta- og barnamálaráðherra um áformaðar „umfangsmestu stuðningsaðgerðir“ við framhaldsskóla samhliða lítt ígrunduðum skipulagsbreytingum sem voru kynntar í haust.

Það er í hróplegu ósamræmi við falleg orð um „fjárfestingu í gæðum, sveigjanleika og mannauði“.

Við sem þjóð getum ekki látið stöðuga vanfjármögnun framhaldsskólans viðgangast. Við verðum að standa við það af alvöru að góð og fjölbreytt menntun er hornsteinn samfélagsins. Hornsteinn velmegunar, hornsteinn lýðræðis, hornsteinn þess þjóðfélags sem við erum, og viljum áfram vera stolt af.

Áramótaheit okkar allra ætti því að vera þetta: Tryggjum gæðamenntun. Mótum framtíðina saman.

Höfundur er formaður Félags framhaldsskólakennara.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sjá meira


×