Skoðun

Gengið til friðar

Ingibjörg Haraldsdóttir og Elín Oddný Sigurðardóttir skrifa

Íslenskir friðarsinnar hafa efnt til friðargöngu niður Laugaveginn á Þorláksmessu síðastliðin 45 ár en fyrsta gangan var á farin árið 1980. Árlega tekur fjöldi fólks sér hlé frá jólastressinu til að leggja sitt af mörkum og taka undir kröfuna um frið og afvopnun í heiminum og eiga sannkallaða friðarstund.

Fyrstu þrjú árin stóðu Samtök herstöðvaandstæðinga fyrir Þorláksmessugöngum og voru þær helgaðar baráttunni gegn kjarnorkuvá og til að vekja athygli á hættunni á gjöreyðingarstríði. Snemma á níunda áratugnum voru stofnaðar margar friðarhreyfingar hér á landi og mynduðu þær saman Samstarfshóp friðarhreyfinga sem hefur skipulagt göngurnar æ síðan. Friðargöngur eru einnig árlega á sama tíma á Akureyri og Ísafirði.

Frá upphafi var baráttan gegn kjarnorkuvopnum meðal annars á höfunum umhverfis Ísland mjög áberandi. Eftir fall Sovétríkjanna og lok Kalda stríðsins töldu margir að friðsamlegra yrði í heiminum en sú varð því miður ekki raunin. Kjarnorkuafvopnun stórveldanna gekk hægt og stríð brutust út víða meðal annars í Evrópu. Friðarsinnar fengu því ótal tilefni til að benda á og mótmæla stríðsátökum og drápum á óbreyttum borgurum víða um heim. Á Þorláksmessu 1990 var til dæmis lýst áhyggjum vegna innrásar Íraka í Kúveit og aukinnar hættu á styrjöld við Persaflóa sem braust út ári seinna. Á tíunda áratugnum voru stríðsátök í fyrrum Júgóslavíu fordæmd og heræfingum á Íslandi mótmælt. Þá var einnig vakin athygli á kjarnorkusprengingum Frakka, Indverja og Pakistana. Stríðunum í Afganistan og Írak í byrjun þessarar aldar var mótmælt og hvatt til þess að friðsamlegar lausnir yrðu fundnar. Á Þorláksmessu 2001 var því mótmælt að hryðjuverkamaðurinn Sharon stjórnaði Ísrael í skjóli Bandaríkjastjórnar. Ástandið í Palestínu gerði það að verkum að ekki væri lengur hægt að taka heilshugar undir jólasálminn “Bjart er yfir Betlehem”. Eins og allir vita átti ástandið í Palestínu eftir að versna enn meira og enda með þjóðarmorði Ísraelshers á íbúum Gaza.

Málstaður friðar skiptir ekki síður máli í dag en fyrir fjörutíu og fimm árum þegar gangan var fyrst gengin. Stríðsátök geysa víða í heiminum og þjóðarmorð er framið í beinni útsendingu fjölmiðla. Óheyrilegum fjárhæðum er enn sóað í vígvæðingu og ekkert lát virðist vera á hernaðarátökum um allan heim. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur boðað stóraukin útgjöld til hernaðarmála, þvert gegn vilja íslensks almennings. Friðarsinnar benda á að friður verður aldrei tryggður með vopnum og aukin vígvæðing eykur aðeins hættuna á stríði. Við bendum á að friðsamlegar lausnir eru einu lausnirnar sem duga.

Gengið verður á þremur stöðum þann 23.desember. Í Reykjavík verður safnast saman á Hlemmi frá klukkan 17:45 þar sem friðarhreyfingarnar selja göngufólki rafkerti og þaðan verður gengið niður á Austurvöll. Á Akureyri verður gengið frá Samkomuhúsinu á Ráðhústorg og á Ísafirði frá Ísafjarðarkirkju að Silfurtorgi. Allar göngurnar leggja af stað klukkan 18.

Fh. Samstarfshóps Friðarhreyfinga

Ingibjörg Haraldsdóttir, formaður Samstarfshóps Friðarhreyfinga

Elín Oddný Sigurðardóttir, stjórnarmeðlimur Samstarfshóps Friðarhreyfinga




Skoðun

Sjá meira


×