Innlent

Ó­víst hvort Guð­mundur Ingi snúi aftur í ráðu­neytið

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Guðmundur Ingi Kristinsson hefur verið menntamálaráðherra síðan í mars.
Guðmundur Ingi Kristinsson hefur verið menntamálaráðherra síðan í mars. Vísir/Anton Brink

Óvíst er hvort Guðmundur Ingi Kristinsson menntamálaráðherra muni snúa aftur til starfa í menntamálaráðuneytið eftir að veikindaleyfi hans nú lýkur. Hann er á leið í opna hjartaskurðaðgerð og tíminn þarf að leiða í ljós hvernig bataferli hans verður.

Þetta sagði Inga Sæland formaður Flokks fólksins í Silfrinu í Ríkisútvarpinu í kvöld. Áður hefur verið greint frá því að Guðmundur Ingi væri í tímabundnu veikindaleyfi þar sem hann mun gangast undir hjartaaðgerð snemma á næsta ári. Varamaður hefur tekið hans stað á þingi.

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu þar sem tilkynnt var um veikindaleyfið sagði að gert væri ráð fyrir því að aðgerðin myndi tryggja ráðherranum fullan bata til lengri tíma og að hann myndi snúa aftur til starfa í kjölfarið. Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra sinnir tímabundið starfi mennta- og barnamálaráðherra. Allir formenn flokka á þingi mættu í Silfrið í kvöld og þar barst talið að menntamálum.

Þið eruð með menntamálin og þennan stóra mikilvæga málaflokk og Guðmundur Ingi Kristinsson menntamálaráðherra er í veikindaleyfi, við óskum honum auðvitað góðs bata, en reiknarðu með honum aftur í ráðuneytið þegar hann snýr til baka?

„Ég ætla bara að senda batakveðjur til Guðmundar sem fer í aðgerð núna þann 18. desember næstkomandi. Hann er að fara í opna hjartaskurðaðgerð og það þarf að skipta um hjartaloku eða eitthvað slíkt sem ég kann ekki alveg frá að segja,“ sagði Inga Sæland.

„En ég vil nú bara sjá til hvernig framvindan verður þar, það veit enginn hvernig það fer. Einstaklingar þurfa að fara í endurhæfingu, mislanga og annað slíkt eftir slíka aðgerð þannig við óskum Guðmundi alls hins besta bara og bíðum eftir því að hann verði sprækur sem lækur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×