Erlent

Missti af af­hendingunni en er komin heil á húfi til Osló

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Machado komst heil á höldnu til Noregs í gær.
Machado komst heil á höldnu til Noregs í gær. AP/Lise Aserud

María Corina Machado, handhafi friðarverðlauna Nóbels, birtist á svölum Nóbels-svítunnar á Grand Hotel í Osló í nótt, aðeins klukkustundum eftir að dóttir hennar tók á móti verðlaununum fyrir hennar hönd.

Fregnir herma að henni hafi tekist að komast frá Venesúela með bát, eftir að hafa verið í felum í höfuðborginni Caracas í um ellefu mánuði. 

Stuðningsmenn hennar fögnuðu fyrir utan hótelið og sungu þjóðsöng Venesúela, og var launað fyrir þegar Machado birtist fyrir utan og klifraði yfir tálma til að faðma þá.

Vont veður er sagt hafa orðið þess valdandi að Machado tókst ekki að komast til Osló áður en verðlaunaafhendingin fór fram.

Jørgen Watne Frydnes, formaður Nóbels-verðlaunanefndarinnar, notaði tækifærið í gærkvöldi og hvatti Nicolás Maduro til að láta af völdum í Venesúela.

Maduro situr enn í embætti forseta þrátt fyrir að hafa tapað kosningunum í fyrra, þar sem bandamaður Machado, Edmundo González, bar sigur úr býtum.

Bandaríkjastjórn leggur nú mikinn þrýsting á Maduro að fara frá en Maduro virðist staðráðinn í að sitja sem fastast og sagði í vikunni að landsmenn þyrftu að búa sig undir að „brjóta tennur“ Norður-Ameríku, ef til þess kæmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×