Innlent

Úti­lokar ekki að fara í pólitík og bjóða sig fram í borginni

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Úlfar Lúðvíksson hefur lagt einkennisklæðin á hilluna.
Úlfar Lúðvíksson hefur lagt einkennisklæðin á hilluna. Vísir

Úlfar Lúðvíksson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, segist ekki vera búinn að gera upp hug sinn hvort hann muni sækjast eftir embætti ríkislögreglustjóra sem nú er auglýst. Þá segist hann alltaf hafa verið rammpólitískur en enginn hafi komið að tali við hann um framboð.

„Ég er auðvitað rammpólitískur ef því er að skipta. Ef við horfum til að mynda til höfuðborgarinnar, mér þykir vænt um Reykjavík, ég er fæddur hér og uppalinn. Síðasta ár og misseri þá hefur þessari borg verið afskaplega illa stjórnað. Það er svona mín ástæða,“ segir Úlfar í Reykjavík síðdegis.

Enginn hafi rætt við hann um framboð hingað til. Talið barst einnig að embætti ríkislögreglustjóra sem er nú auglýst. Úlfar segist ætla að gefa sér tíma til að ákveða hvort hann sækist eftir embættinu.

„Hann þarf að vera reynslumikill, hann þarf að vera ákveðinn og hann þarf að hafa einhverja framtíðarsýn,“ segir hann aðspurður hvaða eiginleikum ríkislögreglustjóri þurfi að búa yfir.

Herra Ísland

Úlfar sinnti embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum lengi vel þar til Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, tilkynnti honum að hann yrði ekki skipaður aftur. Úlfar lét því samstundis af störfum og segir í viðtalinu að Þorbjörg hafi með þeirri ákvörðun sent mjög skýr skilaboð.

„Mín sýn ef ég horfi til baka, núna hálft ár síðan ég lauk störfum þarna suður frá, í mínum augum fór illa saman að á sama tíma og ráðherra kynnir mér að hún ætli að auglýsa mína stöðu, að þá skömmu síðar býður hún mér að flytjast austur á firði í starf lögreglustjóra þar. Mér finnst þetta nú einhvern veginn ekki alveg fara saman. Þannig ég brást nú þannig við að ég óskaði eftir starfslokum bara daginn eftir,“ segir hann.

Málefni landamæra voru því á borði Úlfars meðan hann starfaði á Suðurnesjunum.

„Það er kerfisbundið eftirlit á ytri landamærunum. Hver og einn sem kemur á ytri landamærin, við getum nú talað um Breta og Bandaríkjamenn, þarf að framvísa vegabréfi. En því er ekki að skipta á innri landamærunum, þannig að innri landamærin eru opin. Um 450 milljónir eiga greiðan aðgang inn í landið og þetta hefur verið vandamál,“ segir hann.

„Ef ég væri herra Ísland, þá værum við ekki í Schengen.“

Ástæðan séu ákveðnir öryggisþættir. Hann telur það mikilvægt fyrir sjálfstæða þjóð að hafa fullt eftirlit og stjórn á eigin landamærum og eins hverjum sé hleypt inn í  landið og hverjir hljóta vegabréfsáritun. Til að mynda ætti að horfa til ETA-kerfis Breta eða fyrirkomulags Bandaríkjamanna.

Vill einfalda kerfið

Meðal breytinga sem Úlfar myndi ráðast í yrði hann ríkislögreglustjóri væri að einfalda kerfið þar sem að á Íslandi býr afar fámennt samfélag.

„Ég gæti séð fyrir mér að landinu yrði skipt upp í fjögur umdæmi og fyrir hverju umdæmi færi einn lögreglustjóri. Hann aftur á móti myndi sækja sitt vald til ríkislögreglustjóra, sem sagt ráðningarsambandið yrði við hann en ekki ráðherra, til að einfalda kerfið,“ segir Úlfar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×