Sport

Fimm­tán tekju­hæstu í­þrótta­konur heims allar með meira en milljarð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tennisstjarnan Coco Gauff er tekjuhæsta íþróttakona heims þriðja árið í röð.
Tennisstjarnan Coco Gauff er tekjuhæsta íþróttakona heims þriðja árið í röð. EPA/JUSTIN LANE

Peningar eru loksins farnir að streyma inn í kvennaíþróttir og njóta sérstaklega íþróttakonur í körfubolta, íshokkí, fótbolta, hafnabolta og blaki góðs af því. Tennisíþróttin er hins vegar áberandi á topplistanum eins og verið hefur í áratugi.

Þær fimmtán tekjuefstu þénuðu áætlaðar 249 milljónir dala á þessu ári og lágmarkið til að komast inn á topp fimmtán listann hækkaði úr 6,7 milljónum dala árið 2024 í 10,1 milljón dala.

249 milljónir dala eru næstum því 32 milljarðar íslenskra króna og þú þurftir að hafa 1,2 milljarða í tekjur til að ná inn á fimmtán manna topplista sem Sportico tók saman.

Á meðal fimmtán tekjuhæstu íþróttakvenna ársins 2025 eru tíu tennisleikarar, sem er einum fleiri en í fyrra, auk tveggja kylfinga og einnar íþróttakonu úr körfubolta (Caitlin Clark), fimleikum (Simone Biles) og skíðaíþróttum (Eileen Gu).

Tennisstjarnan Coco Gauff er í efsta sæti þriðja árið í röð með 31 milljón dala, rétt á undan keppinaut sínum Aryna Sabalenka (30 milljónir dala). Sabalenka er fjórða konan í íþróttaheiminum til að þéna meira en 30 milljónir dala á einu ári, á eftir Naomi Osaka, Serenu Williams og Gauff.

Tennis er enn eina stóra atvinnuíþróttin þar sem laun kvenna eru nálægt því að vera jöfn launum karla. Verðlaunafé á WTA-mótaröðinni er lægra en á ATP-mótaröðinni, en peningarnir eru þeir sömu á risamótunum og Masters 1000-mótunum. Hvað styrktaraðila varðar þénuðu sex konur að minnsta kosti 10 milljónir dala utan vallar, samanborið við fjóra virka karlmenn sem þénuðu 10 milljónir dala eða meira.

Gauff þénaði áætlaðar 23 milljónir dala utan vallar til viðbótar við 8 milljónir dala í verðlaunafé.

Það má lesa meira um þessa samantekt hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×