Körfubolti

Losa sig við goð­sögn: „Var að frétta að ég verð sendur heim“

Sindri Sverrisson skrifar
Chris Paul hefur spilað sinn síðasta leik fyrir LA Clippers.
Chris Paul hefur spilað sinn síðasta leik fyrir LA Clippers. Getty/Katelyn Mulcahy

Chris Paul hefur spilað sinn síðasta leik fyrir LA Clippers, eftir að hafa snúið aftur til félagsins síðasta sumar.

Það hefur allt gengið á afturfótunum hjá Clippers í NBA-deildinni í körfubolta í vetur en í yfirlýsingu frá stjórnanda félagsins segir að Paul sé goðsögn í sögu þess og að enginn kenni honum um hvernig leiktíðin hafi gengið.

„Var að frétta að ég verð sendur heim,“ skrifaði Paul á samfélagsmiðla í nótt og bætti við friðarmerki. Hann var á ferðalagi með Clippers sem spilar á útivelli gegn Atlanta Hawks í kvöld. Brotthvarf hans hefur skiljanlega vakið mikla athygli.

Clippers hafa tapað síðustu fimm leikjum sínum, átta af síðustu níu, og alls sextán af 21 leik. Liðið er næstneðst í vesturdeildinni sem var talið óhugsandi fyrir tímabilið.

Í hópnum eru gæðaleikmenn sem vissulega eru aðeins farnir að eldast, eins og James Harden og Kawhi Leonard, en enginn bjóst við þessu hruni Clippers sem nú hefur ákveðið að losa sig við hinn fertuga Paul, eða CP3.

Hann er á sinni 21. leiktíð í NBA en hefur gefið sterklega til kynna að þetta sé sú síðasta. Hann hefur tólf sinnum spilað stjörnuleikinn, tvisvar unið gull á Ólympíuleikum, og fjórum sinnum verið valinn í úrvalslið NBA. Þá er hann næstefstur á lista yfir flestar stoðsendingar frá upphafi í deildinni, með 12.552, og sá fyrsti sem nær að bæði skora 20.000 stig og gefa 10.000 stoðsendingar.

Segir vandræðin ekki Paul að kenna

Hann lét ljós sitt skína með Clippers á árunum 2011-2017 en hafði svo verið hjá fimm öðrum félögum áður en hann kom aftur til Clippers síðasta sumar.

„Nú skilja leiðir hjá okkur og Chris og hann verður ekki meira með liðinu. Við vinnum með honum að því að finna næsta skref á ferlinum. Chris er goðsögn hjá Clippers og með sögulega ferilskrá,“ sagði Lawrence Frank, stjórnandi hjá Clippers, í yfirlýsingu.

„Ég vil að eitt sé alveg á hreinu. Það kennir enginn Chris um hve langt frá okkar besta við höfum verið. Ég tek ábyrgðina á stöðunni. Það eru margar ástæður fyrir okkar vandræðum. Við erum þakklát fyrir þau áhrif sem Chris hefur haft á félagið,“ sagði þar einnig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×