Lífið

Tók á móti dóttur sinni á bíla­planinu: „Allt er gott sem endar vel‘“

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Teddi ponza, eins og hann er kallaður, tók á móti dóttur sinni á bílaplaninu fyrir utan heimili fjölskyldunnar í Kópavogi síðastliðinn fimmtudag.
Teddi ponza, eins og hann er kallaður, tók á móti dóttur sinni á bílaplaninu fyrir utan heimili fjölskyldunnar í Kópavogi síðastliðinn fimmtudag. Instagram

Handboltasérfræðingurinn og endurskoðandinn Theodór Ingi Pálmason, betur þekktur sem Teddi Ponza, og unnusta hans, Anna Guðný Sigurðardóttir, viðskiptastjóri hjá Sýn, eignuðust stúlku þann 20. nóvember síðastliðinn. Stúlkan ákvað að flýta sér í heiminn og fæddist á bílastæðinu fyrir utan heimili þeirra í Kópavogi. Frá þessu greinir Theodór í færslu á samfélagsmiðlum.

Stúlkan er annað barn Theodórs og Önnu saman, fyrir á Theodór eina stúlku.

Í færslunni segir Theodór frá atburðarásinni sem átti sér stað að morgni fimmtudagsins síðastliðinn.

„Anna byrjaði að finna fyrir verkjum á fimmtudagsmorgun og missti svo vatnið rétt um 8. Þá fór ég með Einar Inga á leikskólann og var kominn til baka um korteri seinna. Þegar ég kom heim var planið að fara beint upp á spítala en þegar Anna er að labba niður stigann heima biður hún mig um að hringja á sjúkrabíl þar sem hún fann að barnið væri að koma! Aðilinn sem ég ræddi við hjá neyðarlínunni sem sagði okkur að halda kyrru fyrir, að sjúkrabíll væri á leiðinni og einungis nokkrar mínútur í hann. 

Tvær mínútur liðu eins og heil eilífð

Theodór segir litlu stúlkuna ekki hafa beðið eftir sjúkrabílnum, sem leiddi til þess að hann brá sér í hlutverk ljósmóður og tók á móti dóttur sinni á bílaplaninu fyrir utan heimili þeirra, í aðeins 2 gráðum, klukkan 08:40.

„Það hentaði þá ansi vel að hafa gripið allt á línunni í den! Við tók löng tveggja mínútna bið eftir sjúkrabílnum sem liðu eins og heil eilífð. Þeir brunuðu með okkur upp á spítala þar sem tekið var vel á móti okkur. Sú litla var ansi köld eftir þessar fyrstu köldu mínútur í þessum heimi en var fljót að ná upp hita,“ skrifaði Theodór. 

Hann segir fjölskylduna enn vera að jafna sig eftir þessa ótrúlegu lífsreynslu, en allt hafi farið vel: „Anna var algjör nagli og yfirveguð í gegnum þetta allt saman og ég nefndi við ljósmæðurnar á spítalanum að þær gætu alltaf heyrt í mér ef það vantar á vakt.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.