Innlent

Skúli sækist eftir 2. sæti

Atli Ísleifsson skrifar
Borgarfulltrúinn Skúli Helgason.
Borgarfulltrúinn Skúli Helgason.

Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 2. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Flokksvalið fer fram 24. janúar næstkomandi.

Í tilkynningu frá Skúla segir að hann sé eldheitur jafnaðarmaður og hafi hann sérstaklega beitt sér fyrir umbótum í menntamálum.

„Ég vil að Samfylkingin setji í forgang að borgin endurheimti forystuhlutverk sitt í menntamálum og leiði saman ríki, borg, fagfélög og háskóla í nýrri gæðasókn í menntamálum þar sem við aukum stuðning við kennara á vettvangi til að mæta betur fjölþættum þörfum barna og nýtum í auknum mæli rannsóknir og gagnreyndar aðferðir til að auka færni nemenda í lestri, stærðfræði og náttúruvísindum,“ segir í tilkynningunni. 

Skúli hefur átt sæti í borgarstjórn frá árinu 2014. Áður hafði hann setið á þingi 2009 til 2013 og var hann þar áður framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar á árunum 2006 til 2009.

Í tilkynningunni segir hann muni næstu fjögur árin einnig leggja áherslu á eftirfarandi öfluga húsnæðisuppbyggingu, sjálfbæra atvinnustefnu og náttúruvernd, pnun hreystileikskóla, fleiri græn svæði í borginni, tiltekt í rekstri borgarinnar, alvöru geðrækt, heilsueflingu eldra fólks, fjölmenningu sem skapi betra samfélag, minna ónæði af flugumferð, nýjum Vetrargarði, betri aðstöðu sviðslista og að frískað verði upp í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

„Ég býð fram þekkingu mína og reynslu í borgarstjórn og á Alþingi þar sem ég hef á undanförnum árum beitt mér af kappi í menntamálum, umhverfismálum, atvinnumálum, menningar- og íþróttamálum. Meðal annars þetta:

  • Uppbygging fjölda nýrra leikskóla með yfir 1.200 nýjum leikskólaplássum og bættar starfsaðstæður í grunnskólum, leikskólum og frístundastarfi.
  • Aukinn jöfnuður meðal barna í borginni m.a. með hækkun frístundastyrks og Betri borg fyrir börn.
  • Aukinn stuðningur við grasrótina í menningarlífi borgarinnar.
  • Betri aðstaða til íþróttaiðkunar í borginni.“

Tengdar fréttir

Samfylkingin blæs til prófkjörs í borginni

Samfylkingin í Reykjavík mun halda prófkjör um sex efstu sætin í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Ákvörðun um þetta var tekin á fundi fulltrúaráðs Samfylkingarfélaganna í Reykjavík í fyrradag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×