Körfubolti

Michael Jordan gefur meira en milljarð króna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan hætti að spila fyrir rúmum tveimur áratugum en er samt enn meðal tekjuhæstu íþróttamanna heims.
Michael Jordan hætti að spila fyrir rúmum tveimur áratugum en er samt enn meðal tekjuhæstu íþróttamanna heims. Getty/ Jacob Kupferman

Körfuboltagoðsögnin Michael Jordan hefur ákveðið að styrkja læknamiðstöð í Norður-Karólínu um tíu milljónir Bandaríkjadala.

Það gerir meira en 1,2 milljarða íslenskra króna og er því engin smáupphæð

Jordan vill með þessu heiðra móður sína, Deloris, en eftir gjöfina mun læknamiðstöðin nefna taugavísindastofnun sína eftir Deloris Jordan.

„Móðir mín kenndi mér mikilvægi samkenndar og samfélags og ég get ekki hugsað mér betri leið til að heiðra hana en með því að hjálpa til við að tryggja að þeir sem eru þurfandi geti fengið fullkomnustu taugalækningaþjónustu sem völ er á,“ sagði Michael Jordan um gjöf sína.

Peningarnir munu styðja við starf móður hans á sviði heilsu og vellíðunar, sérstaklega með því að gera sérfræðinga, tækni og umönnun aðgengilegri fyrir sjúklinga sem glíma við heilablóðfall, mænumeðferð, Alzheimer, Parkinson og önnur heilsufarsvandamál.

Deloris Jordan, stofnandi og forseti James R. Jordan-stofnunarinnar og alþjóðlegrar stofnunar með sama nafni, hefur haft umsjón með verkefnum í Bandaríkjunum og Afríku. Hún sagði að það væri auðmjúk reynsla að taka þátt í að færa fleirum í Norður-Karólínu hágæðaþjónustu.

Deloris Jordan er 84 ára gömul og hefur verið forseti James R. Jordan-stofnunarinnar í tvo áratugi.

Michael Jordan hefur sagt frá því að hann ætlaði að semja við Adidas á sínum tíma en það var móðir hans sem fékk hann til að fara og hlusta á tilboð Nike. Þeir buðu honum tilboð sem hann gat ekki hafnað og flestir þekkja framhaldið.

Jordan er enn í dag að græða yfir þrjátíu milljarða á ári á þessum samningi þar sem hann fær um fimm prósent af söluþóknun skóna hans.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×