Viðskipti innlent

Efna­hags­legt tjón lítið ef nokkuð en öll prinsipp þver­brotin

Árni Sæberg skrifar
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra. vísir/Ívar Fannar

Forsætisráðherra segir tíðindi dagsins í tollamálum vera mikil vonbrigði en að varnarsigur hafi þó unnist. Þrátt fyrir að efnahagslegt tjón af verndarráðstöfunum vegna kísiljárns verði lítið, ef nokkuð, hafi prinsipp EES-samningsins verið þverbrotin. Öll samtöl við ráðamenn Evrópusambandsríkja bendi til þess að aðgerðirnar séu ekki forsmekkur að því sem koma skal.

Aðildarríki Evrópusambandsins samþykktu tillögu um verndartolla á innflutt járnblendi á fundi í morgun. Framkvæmdastjórn sambandsins segist ætla að eiga í reglulegu samráði við íslensk og norsk stjórnvöld um aðgerðirnar en löndin tvö eru þó ekki undanþegin verndarráðstöfununum.

Utanríkisráðherra hefur sagt niðurstöðu fundarins mikil vonbrigði og að brotið hafi verið gegn grundvallaratriðum EES-samningsins með ákvörðuninni.

Í samtali við Vísi tekur Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra undir með utanríkisráðherra.

„Þetta eru auðvitað mikil vonbrigði. Við erum búin að vinna hörðum höndum að því undanfarnar vikur og mánuði að koma í veg fyrir að þetta verði niðurstaðan. Við höfum verið í virkri og mikilli hagsmunagæslu, bæði gagnvart framkvæmdastjórninni og leiðtogum og utanríkisráðherrum einstakra Evrópusambandsríkja. En þetta er engu að síður, þrátt fyrir að þetta prinsipp hafi verið brotið, að okkar mati, hvað varðar aðgengi að markaðnum án þess að hindranir séu til staðar, þá er þetta varnarsigur.“

Neikvæðar efnahagslegar afleiðingar jafnvel engar

Kristrún segir að um varnarsigur sé að ræða þar sem að sú tillaga sem hlaut brautargengi á fundi aðildarríkjanna í dag hafi falið í sér tollkvóta og viðmiðunarverð fyrir kísiljárn frá Íslandi, sem dragi verulega úr, og mögulega að öllu leyti, neikvæðum afleiðingum af verndarráðstöfun Evrópusambandsins.

„Það er verið að taka mið af aðstæðum hér á Íslandi og forstjóri þess fyrirtækis sem fellur undir þessar hindranir núna hefur sjálf haft á orði að þetta sé varnarsigur af okkar hálfu hvað það varðar. Við þurfum auðvitað að halda því til haga að þessi virka hagsmunagæsla hefur þó skilað okkur á þennan stað. En eins og ég segi, það gengur auðvitað ekki að EES-samningurinn sé brotinn með þessum hætti og ég kom því á framfæri við leiðtoga Evrópusambandsríkja og ég mun gera það áfram.“

EES-samningurinn sé frábær viðskiptasamningur

Þrátt fyrir að Evrópusambandið hafi brotið gegn EES-samningnum með ákvörðun sinni í dag sé mikilvægt að halda því til hafa að samningurinn sé frábær viðskiptasamningur fyrir Ísland.

„Þetta hefur verið kjölfestusamningur í okkar efnahagsstefnu, um 70 prósent af útflutningi Íslands fer til ESB-ríkja og það skiptir okkur gríðarlegu máli að samningurinn sé virkur og hann verður áfram virkur, þrátt fyrir þessa uppákomu.“

Hagsmunagæsla vegna málsins muni halda áfram gagnvart framkvæmdastjórninni og öðrum aðildarríkjum, til að mynda á árlegum fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem hefst á morgun. 

Um einstakt tilvik að ræða

Kristrún segist ekki telja að ákvörðun ESB í dag sé nokkurs konar forsendubrestur fyrir EES-samningnum.

„Öll þau samtöl sem ég hef átt við leiðtoga ESB-ríkja gefa til kynna að hér sé um einstakt tilvik að ræða. Við vorum nú á dögunum undanskilin svipuðum aðgerðum á sviði stálframleiðslu og við höfum fengið skýr skilaboð um að þetta sé einstakt tilvik. EES-samningurinn er enn þá virkur, er enn þá mikilvægur viðskiptasamningur fyrir Ísland og það eru hagsmunir allra sem hér búa og allra í stjórnmálum á Íslandi að halda EES-samningnum virkum.“

Er álið næst?

Líflegar umræður spunnust á þingfundi dagsins um fundarstjórn forseta. Umræðurnar snerust reyndar ekki að nokkru leyti um fundarstjórn forseta heldur aðeins um ákvörðun aðildarríkja ESB. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, steig fyrst í ræðustól og sagði sambandið með ákvörðuninni hafa sýnt klærnar og sitt rétta andlit.

„Þetta snýst ekki bara um eina vöru eða eina atvinnugrein heldur snýst þetta um grundvallarspurningu. Er Ísland raunverulega hluti af innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn eða ekki?“ spurði Guðrún.

Með ákvörðuninni væri Evrópusambandið að brjóta á Íslandi og Noregi, brjóta gegn grundvallarreglu EES-samningsins um frjálst flæði vöru.

„Ég minni á að samningurinn gengur út á frjálst flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns og því spyr maður, hvað er næst?“

Fleiri hafa spurt sig að því hvað verður næst. Til að mynda er því velt upp í norska ríkisútvarpinu í dag að álið gæti verið næst á lista ESB yfir vörur sem þurfi að halda hlífiskildi yfir. Bent er á það að slíkar verndarráðstafanir myndu koma til með að hafa miklum mun meiri áhrif á Noreg en verndarráðstafanir vegna kísiljárns. Ljóst er að sömu sögu er að segja af Íslandi.

Hefur þú ekki áhyggjur af því að það komi eitthvað annað svipað í næstu viku eða eftir ár?

„Eins og ég segi, öll þau samtöl sem ég hef átt við leiðtoga Evrópusambandsríkja hafa bent til þess að um einstakt tilvik sé að ræða. Við munum aftur á móti halda því skýrt til haga í okkar samtölum að þetta sé ekki í lagi, að þetta sé brot á EES-samningnum og við munum leitast við að vinda ofan af þessari ákvörðun,“ segir Kristrún.

Þjóðarinnar að segja til um framhaldið

Meðal þess sem velt var upp í þinginu í dag var hvort að tíðindin frá Brussel væru tilefni til þess að gera hlé á innleiðingum EES-gerða. Bent hefur verið á það í dag að skökku skjóti við að Íslendingar taki upp íþyngjandi regluverk ESB, án þess að hafa fullan aðgang að innri markaði sambandsins. 

Kristrún telur ekki tilefni til þess að salta innleiðingar EES-gerða vegna málsins, heldur þvert á móti.

„Ég held að það sé einmitt mikilvægt, í ljósi mikilvægis EES-samningsins fyrir Íslendinga alla, fyrirtæki hér á landi og neytendur, að við höldum áfram að sinna EES-samningnum. Þessi uppákoma í dag er auðvitað alvarleg, við höfum komið því skýrt til skila, en hún er einstök. Við munum halda því áfram til haga, reyna að fá þessu hnekkt eftir öllum leiðum. En það skiptir máli að við höldum EES-samningnum virkum og allir hafa hagsmuni af því, allir flokkar á Alþingi.“

Þá hefur því verið velt upp hvort tíðindi dagsins hafi áhrif á áform ríkisstjórnar Kristrúnar um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um að taka aðildarviðræður við ESB upp á ný.

„Það er þjóðin sem mun svara þessu. Við höfum lagt í þá vegferð að ráðast í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok þessa kjörtímabils, eða lok 2027, um hvort við eigum að klára aðildarviðræður við Evrópusambandið eða ekki. Í lok dags þá er það þjóðin sem kýs já eða nei við því og tekur afstöðu til þess hvort að einhver atvik á leiðinni hafi áhrif á hennar skoðun.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×