Sport

Spilaði í NFL-deildinni ný­búinn að greinast með krabba­mein

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Singleton hlustar á bandaríska þjóðsönginn fyrir leik Denver Broncos og Las Vegas Raiders, leik sem hann spilaði aðeins nokkrum dögum eftir að hafa greinst með krabbamein.
Alex Singleton hlustar á bandaríska þjóðsönginn fyrir leik Denver Broncos og Las Vegas Raiders, leik sem hann spilaði aðeins nokkrum dögum eftir að hafa greinst með krabbamein. Getty/Cooper Neill

Alex Singleton, varnarmaður Denver Broncos, spilaði í nýlegum sigri liðsins á Las Vegas Raiders þrátt fyrir að hafa greinst með eistnakrabbamein nokkrum dögum áður.

Hann lét líka finna fyrir sér í leiknum og var því ekkert að hlífa sér þrátt fyrir stöðuna.

Hinn 31 árs gamli fór í aðgerð síðastliðinn föstudag til að fjarlægja krabbameinsæxli sem var á byrjunarstigi, degi eftir að hann átti níu tæklingar í 10-7 sigri Broncos á Raiders á Mile High Stadium.

Í færslu sinni á Instagram-reikningi sínum sagði Singleton að heilsufarsáhyggjur hans hafi byrjað fyrir rúmum tveimur vikum eftir lyfjapróf sem sýndi hækkað magn hormónsins hcG í líkama hans.

Heimsókn til þvagfærasérfræðings, sem framkvæmdi ómskoðun í síðustu viku, leiddi í ljós eistnakrabbamein.

Singleton sagðist vera á batavegi eftir aðgerð og spáði því að hann myndi snúa aftur á völlinn á næstu vikum á meðan hann bíður eftir frekari niðurstöðum úr rannsóknum en hann segist hafa mjög góðar batahorfur.

„Ég velti því mikið fyrir mér hvort ég ætti að deila svona persónulegum upplýsingum opinberlega,“ skrifaði Singleton.

„En staðreyndin er sú að ef það hjálpar einni manneskju að ákveða að fylgjast betur með líkama sínum, þá er það vel þess virði,“ skrifaði Singleton.

„Snemmbúin greining og regluleg skimun bjarga mannslífum og geta sparað ástvinum mikla sorg,“ skrifaði Singleton.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×