Körfubolti

Blikarnir taplausir á toppnum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sölvi Ólason gaf 12 stoðsendingar og skoraði 17 stig í sigrinum gegn Skallagrími í kvöld.
Sölvi Ólason gaf 12 stoðsendingar og skoraði 17 stig í sigrinum gegn Skallagrími í kvöld. vísir / anton brink

Breiðablik stefnir hraðbyri upp í úrvalsdeildina í körfubolta. Liðið hefur ekki enn tapað leik á tímabilinu í 1. deildinni og lagði Skallagrím að velli í Smáranum í kvöld, 111-104, eftir háspennuleik.

Leikurinn stóð tæpur lengi vel og Borgnesingar voru næstum því búnir að afhenda Blikum fyrsta tap tímabilsins. Skallagrímur leiddi með átta stigum í upphafi fjórða leikhluta en missti forystuna frá sér og tapaði leiknum svo með sjö stigum.

Breiðablik sigldi þar með sjötta sigri tímabilsins í höfn og er taplaust á toppi 1. deildarinnar. Haukar eru einnig taplausir, með fimm sigra í fimm leikjum, og liðin mætast í toppslag í næstu umferð.

Sardaar Coulhan var stigahæstur hjá Breiðabliki í kvöld með 28 stig en þessi öflugi Bandaríkjamaður hefur verið heitur á tímabilinu og skorað að meðtaltali 23,8 stig í leik.

Sölvi Ólason átti stórleik sem leikstjórnandi og gaf heilar 12 stoðsendingar, auk þess að skora 17 stig.

Alexander Jan Hrafnsson var lunknastur við að hnupla boltanum og stal honum þrisvar. Hann er sonur, og bróðir, þjálfara liðsins, Hrafns Kristjánssonar og Mikaels Mána Hrafnssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×