Lífið

Al­gjör ó­vissa með Söngvakeppnina

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Rúnar Freyr Gíslason er verkefnastjóri sjónvarps hjá Ríkisútvarpinu og haldið utan um Söngvakeppnina undanfarin ár.
Rúnar Freyr Gíslason er verkefnastjóri sjónvarps hjá Ríkisútvarpinu og haldið utan um Söngvakeppnina undanfarin ár. Vísir/Lýður Valberg

Enn er óvissa hvað verður um Söngvakeppni Ríkisútvarpsins og frestur um að senda inn lög er enn í gildi. Ekkert hefur verið gefið upp um það hvenær sá frestur rennur út en skipuleggjendur eru að sögn að skoða málið. Það ætti að skýrast á næstu dögum.

Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Rúnari Frey Gíslasyni verkefnastjóra sjónvarps hjá Ríkisútvarpinu sem haldið hefur utan um keppnina undanfarin ár. Ríkisútvarpið tilkynnti í september að Ísland myndi taka þátt í Eurovision í Vín á næsta ári með þeim fyrirvara að niðurstaða samráðs innan Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) um þátttöku Ísraels lægi fyrir.

Hætt var við atkvæðagreiðslu um þátttöku Ísrael sem fara átti fram í nóvember þegar vopnahlé tók gildi hjá Ísrael og Hamas-samtökunum. Til stendur að ræða málið á aðalfundi EBU í desember en ekki er reiknað með neinni atkvæðagreiðslu eða niðurstöðu vegna málsins.

Ríkisútvarpið opnaði þann 9. september síðastliðinn fyrir innsendingar laga inn í Söngvakeppnina. Þann 3. október var svo tilkynnt að skilafrestur hefði verið framlengdur og var það þá til þess tíma er niðurstöður úr atkvæðagreiðslu EBU um þátttöku Ísraels í Eurovision myndu liggja fyrir í byrjun nóvember. Atkvæðagreiðslu sem hætt var við 13. október, tíu dögum eftir tilkynningu Ríkisútvarpsins.

„Stutta svarið: Enn óvissa, erum að skoða málið. Skýrist vonandi á næstu dögum,“ segir Rúnar Freyr Gíslason í svari til fréttastofu um stöðu Söngvakeppninnar. Samkvæmt því sem fréttastofa kemst næst hafa engir kynnar verið bókaðir á keppnina í ár. Í fyrra rann fresturinn út 23 dögum eftir að auglýst var eftir lögum og náði fresturinn þannig frá 20. september til 13. október.

Í ár eru liðnir tæplega sextíu dagar síðan fyrst var auglýst eftir lögum. Samkvæmt heimildum Vísis hafa innsendingar laga í keppnina í ár verið töluvert færri en árin á undan og ekki að undra enda fullkomlega óljóst hvort Ísland verði yfirhöfuð meðal keppenda í Eurovision.

Söngvakeppnin hefur allajafna verið sú leið sem Íslendingar hafa nýtt til að velja sér framlag sitt til Eurovision undanfarin ár og heitið sama nafni síðan 2013. Það hafa verið undantekningar líkt og árin 2004 og 2005 þegar Jónsi og Selma voru valin til þátttöku án nokkurrar keppni. 

Sömuleiðis fór engin keppni fram stærstan hluta tíunda áratugarins frá 1995 til 1999. Undanfarin ár hefur þó engin önnur leið verið farin til að velja framlag Íslands og myndi það því sæta töluverðum tíðindum yrði önnur leið farin í ár.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.