Körfubolti

Tví­tug körfu­bolta­kona með tíma­móta­fjár­festingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
JuJu Watkins byrjaði háskólaferil sinn frábærlega með USC en missir af þessu tímabili vegna meiðsla.
JuJu Watkins byrjaði háskólaferil sinn frábærlega með USC en missir af þessu tímabili vegna meiðsla. Getty/Michael Hickey/

Körfuboltakonan JuJu Watkins hefur gengið til liðs við fjárfestahóp nýliða Boston Legacy FC í NWSL-deildinni og er þar með fyrsti háskólaíþróttamaðurinn til að fjárfesta beint í atvinnuliði í kvennaíþróttum.

Hún bætist þar með í hóp fjárfesta í Boston Legacy sem inniheldur meðal annars Aliyah Boston úr Indiana Fever, leikstjórnanda Chicago Bears, Caleb Williams, Ólympíugullverðlaunahafann Aly Raisman og leikkonuna Elizabeth Banks.

JuJu Watkins er stórstjarna í University of Southern California-skólanum og þykir líkleg sem framtíðarstjarna í WNBA-deildinni.

NIL-tekjurnar drjúgar

Hún hefur notið góðs af auglýsingatekjum sem háskólaíþróttafólk hefur fengið aðgengi að í formi svokallaðra NIL-samninga.

Watkins hefur hlotið Naismith-verðlaunin sem besti háskólaleikmaður ársins, John R. Wooden-verðlaunin og var útnefnd leikmaður ársins af AP. Watkins mun þó ekki spila á 2025–26 tímabilinu með USC eftir að hafa slitið krossband í leik Trojans í annarri umferð gegn Mississippi State í mars.

Tímamót fyrir kvennaíþróttir

„Fjárfesting Juju markar tímamót fyrir kvennaíþróttir og kraft NIL,“ sagði Jennifer Epstein, eigandi Boston Legacy. „Sem fyrsti háskólaíþróttamaðurinn til að fjárfesta beint í atvinnuliði í kvennaíþróttum sýnir hún að háskólaíþróttamenn nútímans eru ekki bara að byggja upp eigin vörumerki – þeir eru að móta framtíð íþróttarinnar.“

„Við erum himinlifandi með að bjóða Juju velkomna til Boston Legacy FC á meðan við byggjum upp skriðþunga fyrir fyrsta tímabil okkar árið 2026 og opnunarleik á heimavelli þann 14. mars 2026.“

Stolt af því að vera hluti af hreyfingunni

„Boston Legacy FC er að skapa vettvang fyrir konur til að ná árangri, leiða og hvetja aðra á hæsta stigi,“ sagði JuJu Watkins. „Ég er stolt af því að vera hluti af hreyfingunni sem ýtir kvennaíþróttum áfram,“ Watkins.

Watkins var með 23,9 stig og 3,4 stoðsendingar að meðaltali á öðru ári sínu með USC.

Boston mun hefja leik í NWSL-deildinni árið 2026 ásamt öðru nýliði, Denver Summit, þegar deildin stækkar í 16 lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×