Innlent

„Þessi starf­semi er komin til að vera“

Bjarki Sigurðsson skrifar
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir er dómsmálaráðherra.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir er dómsmálaráðherra. Vísir/Ívar Fannar

Dómsmálaráðherra vill skoða að hleypa erlendum veðmálasíðum inn á íslenskan markað. Staðan eins og hún er sé alls ekki góð. Hún hallist ekki að því að banna hluti.

Íslendingar stunda veðmál næst mest allra þjóða heims. Um tíu milljarðar króna renna úr landi árlega til erlendra spilasíðna sem ekki eru með starfsleyfi hér á landi. Lögin hafa vart verið uppfærð síðan árið 2005 og starfa erlendu vefsíðurnar í raun í skjóli úreltra laga sem gera lítið ráð fyrir erlendri netspilun. 

Óbreytt staða vandamál

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra segist vilja breyta reglunum.

„Ég held að óbreytt staða sé vandamál. Við sjáum að þetta er risastór markaður og tölurnar hlaupa á milljörðum, jafnvel tugum milljarða. Óbreytt staða held ég að sé vandamál. Ég hef aðeins verið að skoða þetta og líta til þess hvernig regluverkinu á Norðurlöndunum er háttað. Ég held við þurfum að horfast í augu við það að þessi starfsemi er komin til að vera. Við séum frekar að horfa til þess hvernig við getum búið til eðlilega umgjörð þessara mála,“ segir Þorbjörg Sigríður. 

Vill ekki banna meira

Fyrir þremur árum skilaði starfshópur á vegum ráðuneytisins skýrslu um málaflokkinn. Þar voru fulltrúar allra hagsmunaaðila en gátu þeir ómögulega komist að sameiginlegri niðurstöðu. Það bendir til þess að sama hvernig lögunum verður breytt, þá verður ákveðinn hópur ósáttur. Ráðherra hallast að því að opna markaðinn frekar en að loka honum meira.

„Sjálf er ég þeirrar skoðunar að ég held að bann sé ekki lausnin út úr þessu. Svo er ég líka jarðtengd hvað varðar væntingar,“ segir Þorbjörg Sigríður. 

Þannig þig langar að reyna að opna aðeins á þennan markað hér á landi. Erlendir aðilar geti líka verið hér?

„Ég held að það sé jarðtengdasta niðurstaðan. Ég er sjálf ekki hrifin af óþarfa bönnum. Mér finnst skipta máli að það verði heilbrigð umgjörð utan um þennan markað. Að við höfum yfirsýn, innsýn og reglur. Eftirlit og séum meðvituð um hætturnar þarna. En eins og ég segi, ég er ekki hrifin af algjöri banni á þessum markaði, nei.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×