Innlent

Ingi­björg tekur slaginn við Berg­þór

Kjartan Kjartansson skrifar
Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður Miðflokksins úr Norðvesturkjördæmi.
Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður Miðflokksins úr Norðvesturkjördæmi. Vísir/Vilhelm

Að minnsta kosti tveir verða í framboði til varaformanns Miðflokksins eftir að Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður flokksins, tilkynnti um framboð sitt í morgun. Þar etur hún kappi við Bergþór Ólason.

Ingibjörg greindi frá framboði sínu í tilkynningu sem hún sendi fjölmiðlum í morgun. Segist hún hafa fengið fjölmargar áskoranir um að bjóða sig fram úr öllum landshlutum. Eftir umhugsun og samtal við fjölmarga flokksmenn hafi hún ákveðið að gefa kost á sér.

Telur Ingibjörg mikil tækifæri framundan fyrir Miðflokkinn.

„Styðja þarf við innra starf flokksins með samtali við grasrótina. Sveitastjórnakosningar eru í vor, verja þarf fullveldið, fólkið, frelsið, fyrirtækin og framtíð Íslands. Koma þarf á skynsamlegri stefnu í málefnum hælisleitenda. Okkur ber að tryggja landamærin og öryggi borgaranna, fæðuöryggi og innlenda matvælaframleiðslu og margt fleira,“ segir í framboðstilkynningunni.

Ingibjörg var oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir síðustu þingkosningar. Hún starfaði áður í utanríkisþjónustunni, meðal annars sem sendiherra Íslands í Noregi. Þá var hún ráðgjafi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, þegar hann var forsætisráðherra.

Varaformannskjörið fer fram á flokksþingi Miðflokksins aðra helgi.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×