Lífið

Verður aðalnú­mer hálf­leikssýningar Ofur­skálarinnar

Atli Ísleifsson skrifar
Bad Bunny er einn vinsælasti rappari heims um þessar mundir.
Bad Bunny er einn vinsælasti rappari heims um þessar mundir. EPA

Rapparinn Bad Bunny mun troða upp í hálfleik Ofurskálarinnar, úrslitaleiks NFL, sem fram fer í Santa Clara í Kaliforníu í Bandaríkjunum 8. febrúar næstkomandi.

Bad Bunny greinir frá því á samfélagsmiðlum að að troða upp í hálfleik Ofurskálarinnar sé nokkuð sem hann geri fyrir alla þá sem komu á undan honum, „hlupu ótal metra þannig að hann gæti komið inn og skorað snertimark.“ Hann segir þetta vera „fyrir fólkið mitt, menningu mína og sögu okkar“, en Bad Bunny, sem heitir Benito Antonio Martínez Ocasio réttu nafni, kemur frá Púertó Ríkó.

Skömmu fyrir tilkynningu Bad Bunny hafði hann tilkynnt að hann væri bara með eina tónleika fyrirhugaða í Bandaríkjunum.

Bad Bunny er einn vinsælasti tónlistarmaður heims um þessar mundir en hann gaf út sína sjöundu plötu fyrr á árinu, Debí Tirar Más Fotos.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Bad Bunny kemur fram á Ofurskálarsviðinu, en erlendir fjölmiðlar greina frá því að orðrómur sé uppi um að bæði Adele og Taylor Swift hafi afþakkað að vera aðalnúmer hálfleikssýningar Ofurskálarinnar á næsta ári.

Úrslitaleikurinn mun fara fram á Levi‘s-vellinum, heimavelli San Francisco 49ers, en völlurinn tekur rúmlega 68 þúsund manns í sæti.

Rapparinn Kendrick Lamar sá um hálfleikssýningu Ofurskálarinnar í febrúar síðastliðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.